Guðni biðst afsökunar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, baðst í dag afsökunar í færslu á Facebook á orðanotkun sinni í sjónvarpsviðtali við RÚV á dögunum, þegar hann sagði orðið fáviti. 

Viðtalið sem um ræðir birtist í kjölfar þess að Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, var sakaður um kynferðislegt ofbeldi. KSÍ var einnig gagnrýnt fyrir gerendameðvirkni og að hylma yfir atvikið.

„Það er mikill heiður að koma fram fyrir Íslands hönd, að vera fulltrúi Íslands, hvort sem það er í íþróttum eða á öðrum vettvangi. Þeim heiðri fylgir ábyrgð, fylgir sú skylda að haga sér sómasamlega, að vera ekki fáviti,“ sagði Guðni í viðtalinu.

Forsetinn hefur þó séð að sér og baðst hann afsökunar á að hafa látið ummælin falla.

Ég biðst afsökunar á að hafa í sjónvarpsviðtali í síðustu viku notað orðið fáviti í umræðu um viðkvæm og erfið mál og tekið almennt of sterkt til orða. Það gerði engum gott, allra síst mér. Afsökunin er skilyrðislaus. Ég mun ekki nota orðið aftur í þessu samhengi þótt það hafi verið gert með þessum hætti í fræðslu í grunnskólum landsins. Það getur kannski átt við þar en alls ekki af minni hálfu. Ég sé svo sannarlega eftir því og ítreka að ég bið allt það fólk, sem ég særði, afsökunar,“ segir í færslu Guðna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert