Segir Skógræktina bregðast hlutverki sínu

Undanfarin sumur hefur fé gengið óhindrað úr afrétt yfir hina …
Undanfarin sumur hefur fé gengið óhindrað úr afrétt yfir hina beitarfriðuðu Þórsmörk. Ljósmynd/Aðsend

Páll Ásgeir Ásgeirsson leiðsögumaður segir Skógræktina vera að bregðast hlutverki sínu hvað varðar að vernda og rækta upp land í Þórsmörk. Fé hefur fengið að ganga um norðanverða Þórsmörk undanfarin átta sumur og fleira fé sást í Mörkinni í sumar, að sögn Páls. Fé gengur óhindrað úr Almenningum, afrétt norðan Þórsmerkur, yfir í Þórsmörk. Þórsmörk er friðað land og samkvæmt lögum má ekki beita sauðfé þar.

Í samtali við Morgunblaðið segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, að Þórsmörk þoli vel ágang sauðkindarinnar. „Við sjáum ekkert stórkostlega miklar skemmdir á gróðri, annað en bara för og að þarna sé lággróður bitinn. En það sem við vitum er að smábirki sem er að koma upp er líka bitið. Það að fé gangi inn á landið hægir á framvindu birkiskógarins,“ segir Hreinn.

Unnið hefur verið markvisst að skógrækt í Þórsmörk í meira en hálfa öld . Þá hefur hún verið beitarfriðuð í hartnær hundrað ár.

Afréttin í grennd við Þórsmörk var friðuð árið 1990 og girðing á milli Þórsmerkur og Almenninga fjalægð sumarið 1991. Tuttugu árum seinna var tekin sú ákvörðun að reka mætti fé aftur upp í Almenninga en þó færra fé en áður. Ekki var girt á milli Almenninga og Þórsmerkur í kjölfarið.

Kostnaðarsamt að girða

Á Almenningum mega vera um 180 fjár í heildina og að sögn Hreins fóru um 50 yfir í Þórsmörk á síðasta ári. „Núna í ár vitum við ekki hversu margar fóru yfir í Þórsmörk því bændur voru sjálfir búnir að smala. Við höfum alltaf smalað á sama degi og bændur smala úr Almenningum,“ segir Hreinn.

Mjög erfitt sé að girða svæðið og sú framkvæmd yrði mjög kostnaðarsöm. „Það kom frá ráðuneytinu að það fengist ekki fjármagn til að endurnýja girðingarnar,“ segir Hreinn.

„Þetta er enginn heimsendir en þetta hægir auðvitað á framvindu birkiskóganna, það er það helsta sem við sjáum á móti því að fá fé aftur þarna inn. Það er heldur búið að fjölga fé sem fer þarna yfir. Þetta er ekki þannig að skógurinn sé að hopa en þetta hægir á framvindunni. Við vildum helst að birkið fengi að dreifast óheft en þetta er eitt það besta sem sauðkindin fær, smábirki.“

Misst sjónar á tilganginum

Páll segir Skógræktina sýna bændum óþarflega mikið umburðarlyndi og að hún ætti að taka harðari afstöðu í að vernda svæðið. „Ef Skógræktin ræður ekki við það verkefni að vernda Þórsmörk fyrir þessum ágangi, þá verður að fá einhvern annan í að gæta þessarar skógræktar,“ segir Páll.

Enn fremur segir hann þetta vera furðulegan hugsunarhátt með baksöguna í huga. „Það er búið að rækta skóg í Þórsmörk í meira en hálfa öld og það fjölgar með hverju árinu þeim kindum sem ganga inn í Mörkina. Á þá Skógræktin bara að yppa öxlum og segja að þetta sé allt í lagi, við þolum þetta vel? Er þá ekki bara næsta skref að fara að reka féð inn í Þórsmörk og beita hana eins og hverja aðra afrétt?“

Ef þetta sé afstaða Skógræktarinnar þá sé hún búin að missa sjónar á því verkefni sem henni var upphaflega falið, að vernda Þórsmörk og græða hana upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »