Slitinn strengur Mílu gæti hægt á nettengingu

Ný hálendisleið var tekin í notkun í fyrra sem er …
Ný hálendisleið var tekin í notkun í fyrra sem er annar vari fyrir slitum sem þessum. Míla

Starfsmenn á vegum Mílu vinna nú að viðgerð á landsstreng fyrirtækisins sem slitnaði vegna vegaframkvæmda á svæðinu milli Hvolsvallar og Víkur. Sigurrós Jónsdóttir upplýsingafulltrúi Mílu segir engar tilkynningar hafa borist Mílu um skerta þjónustu það sem af er degi en segir slit strengsins geta hægt á nettengingu. 

Mikið hvassviðri hefur tafið framkvæmdirnar en auk þess þurfti að flytja efni og búnað frá höfuðborgarsvæðinu. Sigurrós gerir þó fastlega ráð fyrir því að viðgerðinni verði lokið í kvöld.

Gögnin þurfa að ferðast allan hringinn

Aðspurð um áhrif fyrir netnotendur segir Sigurrós veg tengingar lengjast fyrir suma notendur: 

„Við sjáum bara undirlagið svo við getum ekki svarað fyrir þá þjónustu sem viðskiptavinir hafa af strengnum. Landshringurinn er hringtengdur svo þjónustan fer þá bara norður fyrir land eða í gegnum hálendisleiðina nýju sem var tekin í notkun í fyrra. Svo þetta getur haft þau áhrif að það verði seinkun á netinu sem verður þannig aðeins hægara.“

Sigurrós segir von á tilkynningu frá Mílu þegar viðgerð lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert