Aðstæður reynst mörgum nemendafélögum erfiðar

Júlíus Viggó Ólafsson forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema.
Júlíus Viggó Ólafsson forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Afléttingar dagsins eru gleðiefni fyrir framhaldsskólanema að sögn Júlíusar Viggós Ólafssonar forseta Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag að frá og með morgundeginum yrðu 1.500 manna samkomur heimilar ef gestir framvísa nýlegri, neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi og 500 manna samkomur án slíks prófs.

Þessi breyting mun því rýmka möguleika fyrir hvers kyns skóla- og nemendafélagsstarf frá því sem áður var.

Betra umhverfi framundan

„Staðnámið er mikilvægt og við vorum þess vegna mjög ánægð með að það héldi í byrjun annar, en nýjustu breytingar veita nú nemendafélögunum betra umhverfi til að halda viðburði fyrir félagsmenn sína. Félagslífið hefur skiljanlega þurft að víkja í faraldrinum, en þessar aðstæður hafa samt verið mörgum félögunum erfiðar, sérstaklega í minni skólunum,“ segir Júlíus.

Framhaldsskólanemar og fleiri hafa ítrekað vakið athygli á ólukkulega stöðu framhaldsskólanemenda í faraldrinum. Sumir þeirra hafa misst af heilu og hálfu árum menntaskólagöngunnar í fjarkennslu án þess að geta ræktað tengsl við samnemendur.

Erfitt að manna nemendafélög

„Okkur hafa borist fréttir um það að erfitt sé að fá fólk til að taka þátt í nýjum stjórnum sumra félaga, en vonin er að með þessari þróun og áframhaldandi tilslökunum nái félagslíf skólanna og starf nemendafélaganna að snúa aftur af fullum krafti í framtíðinni,“ segir Júlíus Viggó sem er bjartsýnn á framhaldið.

mbl.is