Andlát: Finnbogi Jónsson

Finnbogi Jónsson, verkfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri.
Finnbogi Jónsson, verkfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Finnbogi Jónsson verkfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri, lést þann níunda september síðastliðinn í Vancouver í Kanada, 71 árs að aldri.

Finnbogi fæddist 18. janúar 1950. Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri. Foreldrar hans voru Esther Finnbogadóttir f. 24.janúar 1917 - d. 23. Júní 1986, verka- og matráðskona, og Jón Sveinbjörn Kristjánsson f. 13. september 1912 - d. 26. mars 2001, fyrrv. stýrimaður og skipstjóri. Finnbogi lauk stúdentsprófi frá MA 1970, fyrrihlutaprófi í eðlisverkfræði frá HÍ 1973, lokaprófi í eðlisverkfræði frá Tækniháskólanum í Lundi í Svíþjóð 1978 og lokaprófi í rekstrarhagfræði frá háskólanum í Lundi sama ár.

Finnbogi kenndi við Gagnfræða- og Iðnskóla Vestmannaeyja 1970-71. Eftir að Finnbogi lauk háskólanámi varð hann deildarstjóri í iðnaðarráðuneytinu 1979-82, framkvæmdastjóri Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar hf. 1982-86 og jafnframt framkvæmdastjóri Ístess hf. 1985-86. Hann var framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað frá 1986 til 1999, forstjóri Íslenskra sjávarafurða hf. 1999, aðstoðarforstjóri SÍF hf. frá ársbyrjun 2000, starfandi stjórnarformaður Samherja hf. 2000-2005 og framkvæmdastjóri SR-mjöls h/f, frá 2003 til 2006. Hann var framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá 2006 til 2010 og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands frá 2010 til 2012. Þá sat hann auk þess í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka og stofnana. Finnbogi var búsettur í París og Moskvu árin 2012- 2020. Síðari árin sinnti Finnbogi einkum nýsköpun og stjórnarsetu. Meðal annars beitti hann sér fyrir samstarfi um útflutning á íslenskri tækniþekkingu í sjávarútvegi, sem hefur skilað stórum verkefnum í Rússlandi. Hann var formaður Perluvina sem staðið hafa að uppbyggingu náttúrusýninga í Perlunni og sat hann um árabil í háskólaráði á Akureyri. Finnbogi hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín og var meðal annars útnefndur maður ársins í íslensku viðskiptalífi árið 1997 og sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands 1999.

Finnbogi kvæntist þann 27.2.1971 Sveinborgu Helgu Sveinsdóttur, f. 13.6.1948 - d. 13.3.2004, geðhjúkrunarfræðingi og félagsmálastjóra.

Börn Finnboga og Sveinborgar eru Esther, f. 30.11.1969, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og er maður hennar Ólafur Georgsson f. 5.7.1967, flugstjóri. Börn Estherar eru Finnbogi Guðmundsson, f. 18.4.1996, Vigdís Elísabet Bjarnadóttir, f. 11.1.2006 og Georg Ólafsson f. 10.2.2012; Sigríður Ragna f. 20.7.1976, fyrrverandi flugfreyja og starfsmaður á fasteignasölunni Miklaborg og er maður hennar Roberto González Martínez f. 8.8.1977, slökkviliðsmaður. Synir þeirra eru Elmar f. 28.3.2009 og Erik Máni f. 16.2.2012.

Sambýliskona Finnboga frá 2005 Berglind Ásgeirsdóttir f. 15.1.1955, sendiherra. Börn hennar eru Ásgeir Gíslason f. 6.7.1981 viðskiptafræðingur, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir f. 13.6.1988 lögmaður og Sæunn Gísladóttir f. 4.6.1993 þróunarhagfræðingur.

Alsystir Finnboga er Dórothea J. Bergs f. 20.2.1947, hjúkrunarfræðingur, hálfsystir sammæðra er Hrafnhildur Ólafsdóttir f. 20.5.1939, fyrrv. deildarstjóri og hálfbróðir Finnboga, samfeðra, er Anton Helgi Jónsson f. 15.1.1955, skáld.

Útför verður auglýst síðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »