„Ég hef aldrei séð fólk brosa svona mikið“

Snorri Hrafnkelsson undirbýr stökk.
Snorri Hrafnkelsson undirbýr stökk. Icehopp

Dagana 5. til 11. september fór um margt einstakur viðburður fram þegar fallhlífastökkvarar frá 15 löndum stukku samtals 912 sinnum til jarðar og lentu á fallegum stöðum víðs vegar um landið. Viðburðurinn hét Icehopp og hafði verið í burðarliðnum um eins árs skeið og var eftirsóttur meðal erlendra stökkvara.

Áhugasamir fallhlífastökkvarar gátu keypt sér miða í ferðina og þá var flogið með þá yfir nokkrar af helstu náttúruperlum Íslands. Þeim var síðan leiðbeint niður að þeim búin fallhlífum svo þátttakendur gátu virt fyrir sér ferðamannstaðina frá sjónarhóli sem er ókunnur flestum Íslendingum.

Fallhlífarstökkvari við Reynisfjöru.
Fallhlífarstökkvari við Reynisfjöru. Icehopp

Misstu einn dag vegna veðurs

„Til þess að það geti gengið upp og sé gert af öryggi þarf fólk að vera á jörðinni með merkingar sem segir hvar lendingarsvæðið er. Núna vorum við með reykblys og blys svo það væri sjáanlegt hvert við værum að fara. Það auðveldar stökkstjóranum að finna lendingarsvæðið.

Stökkstjórar þekkja svo staðinn sem fólk verður að fer út á og tryggja þannig að þeir séu innan þess ramma sem þarf svo það sé öruggt að allir hitti á stökksvæðið,“ segir Snorri Hrafnkelsson einn af stökkstjórum ferðarinnar.

„Við misstum einn dag í vont veður en síðan vorum við bara einstaklega heppin með veðrið. Við byrjuðum á Hellu á sunnudeginum við ásættanlegar aðstæður. Svo byrjuðum við að stökkva fyrir alvöru á þriðjudeginum við Seljalandsfoss, við flakið á Sólheimasandi, Reynisfjöru, Kirkjubæjarklaustri, Skaftafelli, og vestan við Jökulsárlón. Þaðan fórum við yfir jökulinn frá Höfn og lentum á Sauðárvelli. Síðan lentum við við hliðina á Víti, við Mývatn, Ásbyrgi og inni við Akureyri.“

Getur ekki sagt hvort vænta megi annarrar ferðar

Veðrið lék svo sannarlega við gesti þessa vikuna þó ferðin hafi farið fram í september: „Veðuraðstæður sem við fengum voru hreint út sagt ótrúlegar, og þessi vika öll var bara mögnuð. Ég verð lengi að jafna mig á henni. Að sama skapi var þetta erfitt og tók mikið á, bara að hald utan um sinn hóp og hafa þetta eins og við vildum hafa þetta,“ segir Snorri.

Hann vill ekkert gefa upp um hvort önnur slík ferð sé í burðarliðnum en játar því að gestir hafi strax stungið upp á því að endurtaka leikinn síðar.

Hér má sjá þátttakendur búa sig undir stökk við Ásbyrgi.
Hér má sjá þátttakendur búa sig undir stökk við Ásbyrgi. Icehopp

Gífurleg eftirspurn erlendis frá

Viðburðurinn var fyrst auglýstur síðasta haust í fallhlífastökkssamfélaginu en þrír íslendingar voru meðal þátttakenda, auk þeirra sem komu að skipulagningu og utanumhaldi. Þrátt fyrir tíðar reglubreytingar á landamærunum segir Snorri það ekki hafa verið neinn vanda að manna ferðina:

„Það var uppselt í þetta og vegna ferðatakmarkanna voru 40 manns sem afbókuðu og þeir gátu alltaf fyllt í slotin jafnharðan. Það var mikil eftirspurn eftir þessu.“

Ferðin ein sú eftirminnilegasta á áratugalöngum ferli

Snorri segir ferðina líklega með þeim eftirminnilegasti á löngum og fjölbreyttum ferli í fallhlífarstökki:

„Ég er búinn að vera að stökkva fallhlífarstökk síðan árið 1983 og ég hef aldrei upplifað landið mitt eins og ég gerði núna í þessum túr. Við vorum núna með 76 stökkvara og ég hef aldrei séð fólk brosa svona mikið. Sem stökkstjóri sat ég alltaf aftast við hurðina og að sjá út og þegar maður flýgur yfir Vatnajökul fann ég bara hvernig sólin hitaði mig, þetta hef ég aldrei upplifað á Íslandi áður.“

Ferðin var einstaklega ánægjuleg að sögn Snorra Hrafnkelssonar.
Ferðin var einstaklega ánægjuleg að sögn Snorra Hrafnkelssonar. Icehopp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert