Eins og í ókunnu landi

Garðar Garðarsson er að átta sig á breyttu umhverfi.
Garðar Garðarsson er að átta sig á breyttu umhverfi. mbl.is/Unnur Karen

Prentarinn Garðar Garðarsson flutti alkominn til Íslands í lok ágústmánaðar eftir að hafa búið í Ástralíu og Kanada í um 52 ár. „Ég hef notað tímann til þess að skrá mig í kerfið, er kominn á biðlista hjá Hlíf, dvalaríbúðum aldraðra á Ísafirði, er búinn að skila mínu atkvæði í kosningunum í Kanada 20. september og er tilbúinn að kjósa hérna 25. september.“

Flutti þegar síldin hvarf

Hópur landsmanna flutti til Ástralíu eftir að síldin hvarf af Íslandsmiðum 1968. Garðar var þar á meðal ásamt þáverandi eiginkonu sinni og tveimur ungum börnum þeirra, en þau settust að í Windsor, úthverfi Sydneyjar, 1969. Þar starfaði Garðar við iðn sína í fimm ár, en 1974 vantaði blaðið Lögberg-Heimskringlu í Winnipeg í Manitoba í Kanada setjara. Íslenska Prentarafélagið benti á Garðar og hann sló til. „Við fluttum þá til Kanada og þar hef ég búið og unnið síðan.“

Fljótlega stofnaði Garðar fyrirtæki og svo fór að hjónin settust að í Árborg, þar sem hann rak eigin prentsmiðju en Álfheiður Alfreðsdóttir, kona hans til 1988 þegar þau skildu, var með hárgreiðslustofu. Hún flutti til Íslands, dóttir þeirra býr í Kanada en sonur þeirra dó 1997. Borgar, bróðir Garðars, býr í Finnlandi en Vignir, þriðji bróðirinn, lést 1999. Foreldrar þeirra voru Hulda Ingibjörg Pálsdóttir frá Álftanesi og Garðar Jónsson veitingamaður ættaður vestan úr Ísafirði.

Garðar kynntist Carol Blahey þegar hann vann fyrir útgáfufélag héraðsblaðsins Spectator á Nýja-Íslandi. Þau giftust 1994 og hún tók upp eftirnafn hans. Þau fluttu til vesturstrandar Kanada, þar sem þau störfuðu við blaðaútgáfu um árabil. „Við bjuggum í nokkra mánuði í Kamloops en síðan í Vancouver og víðar þar til Carol dó 2017.“

Eftir að þau hættu í föstum störfum sneri Carol sér að bókaskrifum og sendi frá sér fimm bóka ritröð á árunum 2006-2014. Hjátrú er grunnstefið, en efnið í skáldsögurnar byggði hún á lífi Vestur-Íslendinga í Manitoba á tíma vesturferðanna. Fyrsta bókin, Illur seiður - norn er fædd (Brewing Evil: A witch is born) kom út í íslenskri þýðingu hjá bókaútgáfunni Sölku 2015. Ritferils hennar er sérstaklega minnst í Byggðasafninu í Árborg, sem er rúmlega 100 km fyrir norðan Winnipeg.

Í biðstöðu

Þó að þau hafi sagt skilið við fasta vinnu segir Garðar að þau hafi tekið að sér mörg tímabundin störf. „Ég hef til dæmis unnið í hlutastarfi sem fangavörður jafnt í Bresku-Kólumbíu sem Manitoba undanfarin ár, hef mætt þegar óskað hefur verið eftir því,“ segir prentarinn, sem flutti til Íslands frá Árborg. Hann fékk inni hjá vinafólki í Reykjavík, en vonar að hann finni litla íbúð til að leigja þar til hann kemst inn í íbúð fyrir aldraða. „Ég passaði húsráðanda minn þegar hann var lítill og nú veitir hann mér húsaskjól, sem ég er mjög þakklátur fyrir. En ég vil helst búa úti á landi, Snæfellsnes og Vestfirðir heilla mig mest.“

Garðar segir að margs sé að minnast frá skemmtilegum tíma erlendis og margt hafi breyst, jafnt þar sem hér. „Þegar ég kom fyrst til Kanada hitti ég margt fólk af íslenskum ættum,“ rifjar hann upp. „Ótrúlega margir töluðu gott íslenskt mál þrátt fyrir að hafa aldrei farið til Íslands en hinir voru fleiri sem töluðu bjagaða íslensku. Þá brosti maður í laumi en nú er ég í sömu sporum og þetta fólk. Mig vantar mörg orð í íslensku, skil ekki allt í Mogganum og hef ekki mörg ár til að ná aftur almennilegum tökum á málinu, verð 81 árs í næsta mánuði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert