Ekkja Armandos segir hann ekki hafa átt skotvopn

Armando Beqirai var skotinn til bana í Rauðagerði þann 13. …
Armando Beqirai var skotinn til bana í Rauðagerði þann 13. febrúar síðastliðinn. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Aðalmeðferð Rauðagerðis-málsins verður áfram haldið í dag eftir langar og strangar skýrslutökur sakborninga í gær. 

Tvö ákærðu eru mætt í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur, þau Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho og Shpetim Qerimi. 

Fyrst veitir skýrslu í dag Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja hins látna, Armando Beqirai. 

Hún lýsti atburðum laugardagskvöldið 13. febrúar síðastliðinn, þegar eiginmaður hennar lést af hendi Angjelin Sterkaj. 

Hún hafði ætlað að fara að sofa um ellefuleytið og sendi skilaboð á Armando um það. Hann svaraði að hann væri úti með vinum sínum og hún skyldi ekki hafa áhyggjur. Stuttu síðar heyrir hún það sem henni fannst að einhver væri að detta utan í bílskúrshurð á heimili þeirra. 

Hún veit ekki fyrr en Bjarki, bróðir hennar, sem býr á neðri hæð hússins, kemur askvaðandi og hrópar á hana að hringja í neyðarlínuna. Hún gerir það og viðbragðsaðilar koma á vettvang um þremur mínútum síðar, að sögn Þórönnu. 

Angj­el­in Sterkaj - Rauðagerðismálið í Héraðsdómi Reykjavíkur - Mannadráp í …
Angj­el­in Sterkaj - Rauðagerðismálið í Héraðsdómi Reykjavíkur - Mannadráp í Rauðagerði - Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engan grunaði skotárás

Engan hafi grunað þá að skotárás hafi átt sér stað en hún nefnir að þegar sjúkraflutningamenn hófu endurlífgunartilraunir hafi þeir klippt fötin af Armando. Þá hafi sjúkraflutningamaðurinn spurt hvort Armando hafi verið stunginn, en þegar Þóranna hváði lokaði hún klæðum Armando svo ekki sæist í neina áverka. 

Taldi Þóranna að verið væri að fela fyrir viðstöddum hvað væri að gerast, eins og til að forða aðstandendum hans frá því að þeir kæmust að hinu sanna í málinu með þessum hætti. Lögreglukona sem veitti skýrslu á eftir Þórönnu segir að engan hafi grunað að skotárás hafi átt sér stað og er það í takt við vitnisburð Þórönnu. 

Þóranna segir einnig að eiginmaður hennar hafi ekki hagað sér óeðlilega dagana fyrir andlátið. Þó hafi hún heyrt hann útskýra við einhvern óþekktan viðmælanda í símann á ensku, eins og til þess að útkjá minniháttar deilur. Þóranna segir að Armando hafi ætíð talað við landa sína frá Albaníu á albönsku og því hlyti hann að vera að tala við einhvern annan.

Þóranna segist ekki kannast við að Armando hafi átt skotvopn af neinu tagi, hún gekk mjög reglulega um bílskúr þann er haglabyssan átti að hafa verið í og hún tók aldrei eftir neinu slíku. 

Þóranna segir að fráfall maka sína hafi tekið mjög á hana og tvo syni þeirra. Hún hafi reynt að greiða venjubundnar skuldir, sem þau stofnuðu til, án mikils árangurs. Þá stóðu hjónin í framkvæmdum, sem ekki höfðu klárast áður en Armando lést, og því getur Þóranna ekki selt hús þeirra hjóna. Hún býr enn í Rauðagerði, þar sem morð eiginmanns hennar var framið. 

Murat ekki treystandi

Geir Gestsson, verjandi ákærða Murats Selivrada sem segist hafa verið náinn vinur hins látna Armandos, spurði Þórönnu út í samband þeirra. Hún segir að þeir hafi kynnst við dyravarðastörf á skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur. Það kemur heim og saman við vitnisburð Murats sjálfs frá í gær. 

Hins vegar segir hún að Armando hafi oft sagt að Murat væri ekki treystandi, hann væri alltaf að ljúga. Hann er nú ákærður fyrir aðild að manndrápi Armando. 

Skýrslutökum fyrir héraðsdómi verður áfram haldið í héraðsdómi í dag og má fylgjast með framgangi mála á mbl.is.

Murat Selivrada.
Murat Selivrada. mbl.is/Kristinn Magnússon

Uppfært 18:30

Upphaflega mátti finna í fréttinni persónugreinanlegar upplýsingar er komu ekki fram í máli þeirra sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi í dag, verjenda eða ákæruvalds. Þær upplýsingar hafa nú verið afmáðar.

mbl.is