Fyrirskipun um niðurskurð alls sauðfjár

Hjörðin er öll talin smituð. Myndin er úr safni.
Hjörðin er öll talin smituð. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Matvælastofnun upplýsti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið formlega í gær um að stofnunin hygðist leggja fram fyrirskipun um niðurskurð alls sauðfjár á bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði vegna riðuveiki.

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Riða greind­ist í fé frá bænum á föstu­dag­inn var. Skera þarf alla hjörðina sem er um 1.500 fjár, full­orðið fé og lömb. Hjörðin er öll tal­in vera smituð líkt og fjár­hús­in og nán­asta um­hverfi.

Eftir að fyrirskipunin er lögð fram er ferlið þannig að ráðuneytið hefur í framhaldinu samband við ábúandann og veitir honum frest til að koma á framfæri andmælum við tillögunni. Eftir það tekur ráðuneytið ákvörðun um hvort tilllögunni verður fylgt, segir í svarinu.

Ákveði ráðuneytið að fyrirskipa um niðurskurð verður hafist strax handa við gerð samnings sem er grundvöllur bótagreiðslna.

„Um er að ræða samningaviðræður við ábúendur sem ekki er unnt að segja til um hvenær ljúki en allt kapp verður lagt á að ljúka þeim sem fyrst. Ráðuneytið hefur það alltaf að markmiði,“ segir í svarinu.

Bent er ákvæði laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sem og reglugerð nr. 651/2001, varðandi bæturnar sem eru greiddar. Þar kemur fram að ábúendur skuli hreinsa útihús og nánasta umhverfi á eigin kostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert