Hænurnar hitta í mark

Sigrún Hulda er ánægð með hænurnar sínar.
Sigrún Hulda er ánægð með hænurnar sínar. mbl.is/Unnur Karen

Frá því í fyrrahaust hafa sex papahænur verið í leikskólanum Urðarhóli í Kópavogi. „Þær eru skemmtilegar og hafa algerlega hitt í mark,“ segir Sigrún Hulda Jónsdóttir leikskólakennari um verkefnið sem nefnist „Sjálfbærni og minni matarsóun“.

„Umhverfismál eru okkur mjög hugleikin,“ útskýrir Sigrún. Allt sorp í leikskólanum sé flokkað og starfsfólkinu hafi blöskrað umfang lífræns úrgangs í skólanum. „Við vildum ráða bót á þessu og fengum okkur því hænur til að innleiða heimsmarkmiðin í gegnum sjálfbærni og minni matarsóun.“ Hænurnar fái matarafganga og þakki fyrir sig með því að verpa eggjum. Starfsfólk skólans og börnin annist þær á skóladögum en forráðamenn barnanna taki að sér umönnunina um helgar.

„Við sendum tölvupóst til forráðamanna á miðvikudögum og spyrjum hverjir vilji sjá um hænurnar um næstu helgi. Fyrstur kemur fyrstur fær og þetta hefur aldrei verið vandamál.“ Fólkið fái síðan lykil að hænsnakofanum, hleypi hænunum út, gefi þeim og fái egg að launum.

„Við þrífum kofann einu sinni í viku og krakkarnir taka fullan þátt í þessu öllu.“

Hænurnar aðstoða við aðlögun barnanna og kenna þeim ýmislegt.
Hænurnar aðstoða við aðlögun barnanna og kenna þeim ýmislegt. mbl.is/Unnur Karen

Efla aðlögun og tengingu

Leikskólinn fékk styrk úr Sprotasjóði vegna verkefnisins og er Birna Bjarnarson verkefnisstjóri. Fyrirtæki í Kópavogi gáfu efni í hænsnakofann og gerði fyrir hænurnar og forráðamenn barna í skólanum sáu um framkvæmdirnar. „Þetta hefur tengt foreldra betur inn í starf leikskólans,“ segir Sigrún.

Hún bætir við að krakkarnir sitji gjarnan í kringum gerðið og gefi hænum gras og fleira. „Hænurnar hafa líka aðstoðað okkur vel í aðlögun barna,“ heldur hún áfram. „Dreifa má huga barnanna með því að fara og spjalla við hænurnar og fylgjast með þeim. Samveran við dýrin kennir börnunum líka hvernig hægt er að nýta náttúruna til þess að minnka matarsóun.“ Verkefninu hefur verið vel tekið og það fékk til dæmis Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla í vor.

Sigrún segir að eftir að Birna ákvað að hafa hænur með í verkefninu hafi verið sótt um öll tilskilin leyfi. „Það tók töluverðan tíma og tilfellið er að ég hef ekki enn fengið undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum til að halda hænur á skólalóð, er með bessaleyfi en ekki skriflegt leyfi.“

Til nánari útskýringar segir hún að sótt hafi verið um leyfi til Kópavogsbæjar 2019 og það hafi fengist í fyrra. Síðan hafi komið í ljós að sækja þyrfti um undanþágu um hænsnahald á skólalóð hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs. Heilbrigðisnefnd eftirlitsins hafi ekki getað veitt undanþáguna og því vísað málinu til heilbrigðisráðuneytisins, sem vísaði því til umsagnar hjá Umhverfisstofnun.

„Við höfum sent Umhverfisstofnun skýrslu og höfum alls staðar fengið jákvæð viðbrögð en skriflegt leyfi er samt ekki komið. Ég hef samt ekki trú á öðru en að það berist og hænurnar fái gullpassann.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert