Mikil aðsókn í siglingar í sumar

Margir erlendir ferðamenn sigldu á Fjallsárlóni í sumar.
Margir erlendir ferðamenn sigldu á Fjallsárlóni í sumar. mbl.is/RAX

„Sumarið er búið að vera fínt, við höfum yfir litlu að kvarta. Í raun hefði aðsóknin ekki mátt vera mikið meiri því þá hefðum við þurft að bæta við starfsfólki. Við vorum ekki alveg fullmönnuð,“ segir Ágúst Elvarsson, rekstrarstjóri Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf.

Hann segir að ágústmánuður hafi verið sérstaklega góður hvað aðsókn að ferðum í Jökulsárlón varðar. „Þá vorum við með um 70% af þeim fjölda sem við fluttum árið 2019. Ég gæti trúað að allt árið endi í 50% af fjöldanum árið 2019,“ segir hann enn fremur.

Aðsóknartölurnar ríma við tölur um aðsókn í Vatnajökulsþjóðgarði sem birtar voru í Morgunblaðinu á dögunum. Þar kom meðal annars fram að í ágústmánuði komu um 90 þúsund manns að Jökulsárlóni en árið 2019 voru gestir í sama mánuði um 120 þúsund talsins.

Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um aðsókn í þjónustu fyrirtækisins í ár, enda enn töluvert af ferðamönnum á landinu. Árið 2019 sigldu 155 þúsund manns á lóninu á vegum fyrirtækisins. Í fyrra voru farþegarnir hins vegar um 20 þúsund. „Það er enn þá eitthvað af ferðum. Það sigldu til dæmis á milli 5-600 manns með okkur á sunnudaginn. Þetta er alveg þokkalegt núna og við vonum að það haldi áfram,“ segir Ágúst.

Hann segir aðspurður að ferðamenn frá Bandaríkjunum hafi verið mest áberandi meðal gesta. Ekki hafi verið mikið um Íslendinga í ferðum fyrirtækisins, öfugt við sumarið 2020. „Fyrir okkur var þetta ekkert Íslendingasumar. Þeir eru dottnir niður í svipað hlutfall og var áður, aðeins örfá prósent.“

Góð aðsókn í Fjallsárlón

Steinþór Arnarson, eigandi ferðaþjónustunnar við Fjallsárlón, segir sumarið hafa verið mjög gott. „Það hefur farið fram úr væntingum en á móti kemur að væntingarnar voru kannski ekki miklar,“ segir hann. „Sumarið fór hægt af stað en júlí og ágúst voru góðir. Þeir voru sambærilegir við tímann fyrir Covid. Sumarið í heild sinni er hins vegar ekki komið á þann stað.“

Hann segir að Íslendingar hafi verið duglegir að sækja Fjallsárlón heim í vor og þeir séu aftur farnir að koma nú í haust enda séu góð tilboð á gistingu og siglingu í boði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert