Brostin hrauntjörn orsakaði hættuna

Hrauntjörn brast, sem varð til þess að nýtt hraun flæddi …
Hrauntjörn brast, sem varð til þess að nýtt hraun flæddi yfir eldra hraun í Nátthaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrauntjörn brast í syðri hluta Geldingadala í morgun, sem varð til þess að hraun flæddi til suðurs og niður í Nátthaga. Segir frá þessu á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.

Varð þetta til þess að lögreglan á Suðurnesjum ákvað að hefja allsherjarrýmingu við gosstöðvarnar en flestir ferðamenn hafa farið í Nátthaga til þess að skoða gosið. Talsverður fjöldi ferðamanna var á svæðinu þegar rýming hófst.

Gamalt hraun flæddi yfir nýtt hraun og olli hættu 

Breiddi hraunið úr sér yfir gamla hraunið, sem leiddi til mikillar varmageislunar og brennisteinsmengunar á svæðinu. Þó virðist nú komin ró yfir hraunstrauminn en þó má enn sjá hraun renna undir yfirborði í hraunfossinum niður í Nátthaga.

Lokað var fyrir umferð að gosstöðvunum vegna hraunflæðis í framhaldinu og viðbragðsaðilar meta nú aðstæður, að því er fram kom í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum í dag.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert