Draga 17 tonna slökkviliðsbíl á Nesinu

Dælubíll slökkviliðsins verður dreginn hluta af 10 km hlaupaleiðinni sem …
Dælubíll slökkviliðsins verður dreginn hluta af 10 km hlaupaleiðinni sem SHS mun fara til styrktar Píeta samtakanna á laugardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins mun á laugardaginn draga 17 tonna dælubíl um þriggja kílómetra vegkafla á Seltjarnarnesi. Þessi vegalengd verður hluti af 10 kílómetra hlaupahring um höfuðborgarsvæðið sem hópurinn mun etja til styrktar Píeta samtökunum.

Líkt og mörgum er kunnugt hefði Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka átt að fara fram á laugardaginn. Vegna sóttvarnarráðstafana var maraþonið blásið af en hlauparar voru þó hvattir til að fara sína eigin leið og geta þeir því enn safnað áheitum.

Að sögn Ásdísar Gíslasonar upplýsingafulltrúa SHS hefur það lengi verið hefð hjá slökkviliðinu að taka þátt í  að styrkja ýmis málefni í Reykjavíkurmaraþoninu. Í fyrra var sú ákvörðun tekin að í sýna samstöðu við Píeta samtökin.

Bíllinn fullbúinn

Undanfarin ár hafa hlauparar á vegum SHS tekið upp á ýmsum uppátækjum til að vekja enn meiri athygli á framtaki sínu, hafa þeir til að mynda skokkað í hnausþykkum eldbuxum. Í síðasta maraþoni gengu þau enn lengra þar sem að hluti leiðarinnar var farinn í fullum búnaði, þ.e. í eldgallanum með grímur og kúta. Í ár munu þau toppa sjálfa sig enn á ný þegar að 17 tonna dælubíll verður dreginn hluta leiðarinnar.

Að sögn Ásdís­ar stend­ur bíll­inn full­bú­inn þar sem hann er enn í notk­un. „Þetta er gamli dælu­bíll­inn sem var í Skóg­ar­hlíðinni en hann er til vara þannig hann er full­bú­inn, með slöng­um og tilheyrandi verkfærum fyrir mismunandi útköll. Þau eru í fanta formi, það er bara hluti af starf­inu, þau fara í þrek­próf á hverju ári.   Þau gætu ör­ugg­lega tekið þenn­an bíl alla leiðina ef ég þekki þau rétt.“

Hópurinn stefnir á að leggja af stað rétt fyrir tíu og búast þau við að vera mætt út á Seltjarnanesið um tíuleytið. Munu hlaupararnir skiptast á að draga farskjótan svo verkið deilist á margar hendur.

„Einn getur ekki staðið frammi fyrir öllum verkefnum en með hjálp þá er það hægt. [...] Það er svona kjarninn, sýna samstöðu og vekja athygli á þessu mjög svo þarfa málefni og því starfi sem Píeta samtökin eru að vinna,“ segir Ásdís að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert