Enginn sakni stórhættulegrar Biskupsbeygju

Nýr vegkafli hefur verið lagður um Heiðarsporð á Holtavörðuheiði og …
Nýr vegkafli hefur verið lagður um Heiðarsporð á Holtavörðuheiði og þar með er biskupsbeygjan úr sögunni. Ljósmynd/Vegagerðin

Varasöm beygja að Hringveginum, sem í daglegu tali er kölluð Biskupsbeygja, er úr sögunni eftir að opnað var fyrir umferð á nýjum vegakafla um Heiðarsporð á Holtavörðuheiði í júlí.

Engum er söknuður að beygjunni að sögn Reynis Georgssonar verkfræðings á tæknideild Vestursvæðis og umsjónarmanns framkvæmdarinnar. Segir frá þessu í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

Þar kemur fram að Biskupsbeygja hafi verið stórhættuleg og margar útafkeyrslur hafi orðið á henni á veturna, meira að segja á framkvæmdatímanum.

Verkið klárað ári fyrr vegna átaks í faraldrinum

Vegkafli sem spannar 1,8 kílómetra á Hringvegi um Heiðarsporð í sunnanverðri Holtavörðuheiði hefur nú verið endurbyggður en tengist hann núverandi vegi um 200 metra norðan við brú yfir Norðurá og tekur beygju til norðvesturs frá núverandi vegi með mýkri veglínu en núverandi vegur.

Upphaflega átti að bjóða verkið út árið 2021 en þar sem ríkisstjórnin fór í átak við innviðauppbyggingu vegna faraldurs kórónuveiru var útboðinu flýtt um eitt ár. 

Framkvæmdunum var flýtt um eitt ár vegna faraldursins.
Framkvæmdunum var flýtt um eitt ár vegna faraldursins. Ljósmynd/Vegagerðin
Kort/Vegagerðin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert