Fargestur á vestanverðu landinu

Margæsir á Seltjarnarnesi.
Margæsir á Seltjarnarnesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópar margæsa hafa víða sést á vestanverðu landinu að undanförnu, en gæsirnar eru nýkomnar af varpstöðvunum á heimskautssvæðum í Norðaustur-Kanada, á leið til vetrarstöðva í Írlandi. Margæsir dvelja um tíma á landinu vor og haust, hvílast hér og nærast.

Margæsirnar eiga langt flug að baki.
Margæsirnar eiga langt flug að baki. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þær fyrstu koma hingað í lok marsmánaðar á vorin og fjölgar jafnt og þétt þar til stofninn er hingað kominn um miðjan maí. Þær eru mjög samstiga er þær halda áleiðis til Kanada 27. maí, plús/mínus einn dagur, og segir Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, að nánast megi stilla klukkuna eftir því hvenær þær fara héðan á vorin. Síðsumars koma þær fyrstu um 20. ágúst og þær síðustu fara um 20. október.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Erfitt flug yfir Grænlandsjökul

Þegar varp gengur vel eru fjölskyldur áberandi í hópunum sem hingað koma á haustin, en ungar fylgja foreldrum sínum í tæpt ár. Það er ekki fyrr en næsta varp nálgast að þeir eru hraktir að heiman meðan á vordvölinni á Íslandi stendur, að sögn Guðmundar.

Flug margæsa frá vetrarstöðvum til varpstöðva er alls á fimmta þúsund kílómetra og þar af er leggurinn frá Íslandi til N-Kanada um þrjú þúsund kílómetrar. Meðal annars er flogið yfir Grænlandsjökul, sem eflaust er erfitt fyrir þéttholda gæsirnar sem safnað hafa forða hér til varpsins. Alls er talið að deilitegundin sem kemur við á Íslandi telji tæplega 40 þúsund fugla. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »