FÍB fer í hart við SFF

Runólfur Ólafsson, formaður FÍB.
Runólfur Ólafsson, formaður FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), hefur sent kvörtun vegna hagsmunagæslu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) til Samkeppniseftirlitsins. Telur FÍB að SFF hafi gerst brotleg þegar framkvæmdastjóri SFF varði á opinberum vettvangi hækkun iðgjalda íslenskra vátryggingafélaga.

FÍB segir SFF hafa gerst brotlegt gegn 12 gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 10 gr. laganna sem kveða á um að samtökum fyrirtækja sé óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum eða brjóta í bága við ákvarðanir skv. 16.-18. gr. laganna. Á brotið að hafa átt sér stað þegar Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri SFF birti skoðanapistil á Vísi þann 8. september þar sem hún talaði máli tryggingafélaganna.

Tókust á í skoðanapistlum

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB gagnrýndi á dögunum í skoðanapistli á Vísi hækkun iðgjalda tryggingafélaga á Íslandi sem hann telur okur. Bendir hann á að félögin hafi legið á 50 milljarða króna bótasjóði síðustu áramót sem þau ávaxta skattfrjálst, og að vísitala bíltrygginga hafi hækkað um 44% frá árinu 2015 á meðan vísitala neysluverðs hefði einungis hækkað um 17% á sama tímabili. Auk þess hafi hlutfalli umferðarslysa og slasaðra einnig lækkað.

Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri SFF svaraði gagnrýninni viku seinna opinberlega á Vísi þar sem hún telur mál Runólfs heldur mikla einföldun og færir hún rök fyrir verðlagningu vátryggingafélaganna. Vekur hún meðal annars athygli á að ekki sé nóg að horfa til vísitölu neysluverðs heldur þurfi einnig að skoða hækkun launa og viðgerðarkostnaðar bifreiða, á sama tímabili, sem hefur bæði hækkað umfram 44%. Segir hún mikilvægt fyrir tryggingafélög að halda samsettu hlutfalli undir 100%, sem þau gerðu, svo tryggingarekstur skili arði og að stærsti hlutur hagnaðarins væri vegna ávöxtunar fjárfestingareigna, ekki iðgjalda. Bendir hún þá einnig á að íslensk tryggingafélög gangi lengra í greiðslu bóta vegna líkamstjóna í samanburði við nágrannaríki okkar.

Brjóta gegn sínum eigin leiðbeiningum

Í kvörtun FÍB til samkeppniseftirlitsins kemur fram að „Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er samtökum fyrirtækja óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum eða brjóta í bága við ákvarðanir skv. 16.-18. gr. laganna. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að bannið nái einnig til stjórnarmanna samtaka, starfsmanna þeirra og annarra sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þeirra þágu.”

Í kvörtunarbréfinu er einnig vísað til þess að SFF hafi sjálf sett sér leiðbeiningar um fylgni við samkeppnislögin þar sem kveðið er á um að SFF sé „óheimilt að fara með opinbert fyrirsvar varðandi verðlagningu og þjónustu aðildarfélaga sinna og getur slíkt falið í sér sjálfstætt brot á samkeppnislögum. Tekur þetta m.a. til umræðu á opinberum vettvangi, um verð og verðbreytingar aðildarfélaga og um kröfur viðskiptavina þeirra um lægra verð eða bætt viðskiptakjör.

Framangreint þurfa SFF ávallt að hafa í huga þegar samtökin sinna fyrirsvari fyrir aðildarfélög sín, hvort heldur sem er í viðtölum, með greinaskrifum eða í umræðu á fundum, svo dæmi séu nefnd. SFF þurfa að gæta þess að gegna ekki því hlutverki að verja opinberlega verðlagsstefnu aðildarfélaga sinna, en slíkt er ekki eðlilegt hlutverk hagsmunasamtaka, og sérlega viðkvæmt á fákeppnismarkaði.“

Fara fram á sjálfstæða rannsókn

Telur FÍB að SFF hafi verið að sinna hagsmunagæslu fyrir hönd félagsmanna sinna í greinaskrifum framkvæmdastjórans. Brjóti það gegn 12.gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og einnig leiðbeiningum SFF um fylgni við samkeppnislögin. Fer FÍB fram á að Samkeppniseftirlitið taki til sjálfstæðrar rannsóknar á málinu.

mbl.is