Fór inn á heimili konu sem hafði kært kynferðisbrot

Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri.
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fimmtugur karlmaður var í síðasta mánuði dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands-eystra fyrir húsbrot með því hafa farið klukkan níu að morgni í óleyfi inn á heimili konu sem hafði deginum áður kært hann fyrir kynferðisbrot. Hlaut maðurinn eins mánaðar dóm fyrir athæfið, en í dóminum segir meðal annars að í ljósi aðstæðna hafi honum átt að vera ljóst að hann væri ekki velkominn á heimilið, auk þess sem samskipti hans við kærasta konunnar kvöldið áður hafi einnig átt að styðja við að hann væri ekki velkominn.

Í dóminum segir að maðurinn hafi um morgun komið á heimili konunnar og kærasta hennar, en þar bjó einnig dóttir konunnar. Knúði maðurinn dyra og kom dóttirin til dyra. Fór hún í kjölfarið upp á aðra hæð hússins, þar sem móðir hennar var sofandi, til að láta hana vita að það væri maður sem vildi ná tali af henni. Dóttirin sagði fyrir dómi að hún hafi hallað hurðinni, en maðurinn sagði að hurðin hefði verið opin.

Konan vildi ekki ræða við manninn, en hann fór í kjölfarið inn í húsið og í stigann. Greinir vitni í málinu á um hversu langt hann fór upp stigann, en kærasti konunnar stoppaði þar för hans og fór fram á að maðurinn færi úr húsinu. Dóttirin, kærastinn og maðurinn staðfestu öll fyrir dómi að kærastinn hefði ítrekað beðið manninn að fara út, en hann ekki hlýtt strax. Í kjölfarið kom til einhverra stimpinga á milli þeirra og í anddyrinu sló kærastinn í höfuð mannsins sem í framhaldinu fór út.

Fram kom í dóminum að kærastinn og maðurinn hafi kvöldið áður hist til að ræða ásakanir konunnar gegn manninum. Málið hafi þó ekki verið útkljáð þá og hafi þeir ekki skilið í góðu.

Í dóminum segir óumdeilt að maðurinn hafi komið óboðinn inn á heimili fólksins daginn eftir að konan greindi frá því að maðurinn hefði brotið gegn henni með alvarlegum hætti. „Þrátt fyrir að þeim hafi ekki borið saman um umrætt atvik, mátti ákærða vera ljóst að við þessar aðstæður væri hann ekki velkominn á heimili brotaþola,“ segir í dóminum. Hann hafi hins vegar knúið dyra margsinnis og svo gengið inn í húsið þrátt fyrir að hafa ekki verið boðið inn af dótturinni. Var framburður dótturinnar talinn trúverðugur og skýr um þessi atriði.

Segir í dóminum að fyrir liggi að maðurinn fór inn í heimildarleysi án þess að hafa nokkra ástæðu til að ætla að hann væri velkominn. Ekki er tekið mark á rökum mannsins um að ekki hafi verið búið að segja við hann berum orðum að hann mætti ekki koma inn og ræða við konuna. „Hlaut honum að vera ljóst af orðum stúlkunnar að hann væri ekki velkominn inn á heimilið, heldur væri til þess ætlast að hann yfirgæfi það,“ segir í dóminum.

Maðurinn var með hreinan sakaferil, en dómurinn lítur til þess að hann hafi brotið „freklega gegn friðhelgi einkalífs og heimilis kæranda, þegar hann kom þangað að morgni dags þegar heimilisfólk var sofandi, knúði dyra þar til þeim var lokið upp og hélt inn í húsið í heimildarleysi, neitaði fyrirmælum um að yfirgefa húsið og krafðist þess að fá að tala við brotaþola, sem honum hlaut að vera ljóst að vildi ekki ræða við hann.“

Hlaut maðurinn sem fyrr segir mánaðar skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða tvo þriðju hluta sakarkostnaðar.

Uppfært: mbl.is hefur fengið staðfest frá lögmanni mannsins að rannsókn lögreglu vegna kæru konunnar hafi verið felld niður. Í kjölfarið hafi sú ákvörðun verið kærð til ríkissaksóknara sem hafi staðfest niðurfellingu málsins. 

mbl.is