Málið erfitt fyrir Tona og fjölskyldu hans

Armando Beqirai var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði …
Armando Beqirai var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði 13. febrúar síðastliðinn. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Anton Kristinn Þórarinsson, gjarnan kallaður Toni, kom í skýrslutöku í aðalmeðferð Rauðagerðismálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann sagði að hann og fjölskylda hans hafi átt mjög erfitt eftir að málið kom upp, eftir að hafa verið bendluð við það. 

Málið allt snýst um morðið á Armando Beqirai, þann 13. febrúar síðastliðinn í Rauðagerðis, sem Angjelin Sterkaj hefur játað að hafa framið. 

Anton var færður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins á sínum tíma en síðar sleppt. 

Anton settist gengt sæti dómara og þurfti að bíða í nokkrar mínútur eftir að Guðjón Marteinsson dómari gengi inn í sal 101. Það væri ekki ofsögum sagt að andrúmsloftið hafi verið spennuþrungið.

Spurður út í meintar sektargreiðslur upp á samtals 50 milljónir í sinn garð, segir Anton að þær greiðslur hafi aldrei átt sér stoð í raunveruleikanum. Hann hafi tékkað á því og gengið úr skugga um það.

Anton og Angjelin voru vinir

Anton segist hafa þekkt Angjelin vel og að þeir hafi verið nánir vinir. Armando þekkti hann lítillega. 

Hann segir að hann hafi ekki kippt sér sérstaklega upp við að Angjelin Sterkaj og meðákærð Claudia Sofia, hafi komið í sumarbústað sem hann var staddur í með fjölskyldu sinni aðeins klukkustundum eftir morðið. 

Hann segist ekki hafa vitað neitt um að Angjelin hafi þá þegar myrt Armando.

Anton sagðist heldur ekki vita að Angjelin ætti byssu, hann hafi aldrei séð hana né handleikið. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssóknari spurði mjög út í byssuna og hvort Anton hafi vitað af því að Angjelin ætti byssu eða ekki.

Angj­el­in Sterkaj.
Angj­el­in Sterkaj. mbl.is/Kristinn Magnússon

Var ekki hótað vegna upplýsinga til lögreglu

Spurður að því hvort honum hafi verið hótað í kjölfar þess að fréttir bárust af því að Anton léti lögreglu upplýsingar í té, segir hann að svo hafi ekki verið. 

Orðrómar hafi verið uppi um það að hans sögn, en hann geti staðfest að svo sé ekki.

Búið að sundra fjölskyldunni

Kona Antons, Ellen Erla Egilsdóttir, gaf svo skýrslu strax á eftir Antoni. Hún lýsti því að málið allt hafi sundrað fjölskyldu hennar og ekkert væri nú eins og það hafi áður verið.

Var henni nokkuð niðri fyrir þegar hún lýsti þessu og bauð dómari henni að gera stutt hlé á ræðu sinni.

Aðspurð sagði Ellen að hún hefði ekki tekið eftir neinu óvenjulegu í fari Angjelin og Claudiu þegar þau komu til þeirra eftir morðið, þar sem Ellen, Anton og fjölskylda voru í vélsleðaferð. 

Hún sagði einnig að hún hafi ekki orðið vör við hótanir í sinn garð eða fjölskyldu sinnar þegar fréttir bárust af því að Anton væri að gefa lögreglu upplýsingar. Hún sagðist þó vita til þess að einhverjir væru ekki sáttir.

mbl.is