Mikilvægt að geta nálgast heildstæðar upplýsingar á einum stað

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að geta nálgast á einum …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að geta nálgast á einum stað heildstæðar upplýsingar um jafnréttismál á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðuneytið hefur sett í loftið nýtt og uppfært miðlægt vefsvæði um jafnréttismál á vef Stjórnarráðsins.

„Ísland trónir efst á listum yfir árangur í kynjajafnréttismálum og hafa ýmsar aðgerðir stjórnvalda vakið alþjóðlega athygli á kynjajafnrétti hér á landi. Ísland hefur sterka rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að jafnréttismálum og er mikill áhugi innanlands og erlendis frá að fá upplýsingar um stöðu og þróun jafnréttismála á Íslandi,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Þar segir einnig, að á vefsvæðinu sé hægt að nálgast upplýsingar á einum stað um aðgerðir stjórnvalda í jafnréttismálum, ýmsa áfanga og útgefið efni auk þess sem þar sé að finna kyngreinda tölfræði sem er hornsteinn að markvissu jafnréttisstarfi.

Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið markvisst að því að styrkja stöðu jafnréttismála í stjórnkerfinu og tryggja að jafnréttissjónarmið séu alltaf höfð til hliðsjónar. Á erlendum vettvangi fæ ég oftsinnis spurningar um af hverju Ísland sé komið svona langt, hvaða lærdóm megi draga af þeim aðgerðum sem Ísland hefur farið í. Þess vegna er mikilvægt að geta nálgast á einum stað heildstæðar upplýsingar um jafnréttismál á Íslandi," er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í tilkynningunni. 

mbl.is