Neitað um strimla til að mæla blóðsykur

Þráinn Viðar Egilsson kveðst ósáttur við framferði SÍ sem neitar …
Þráinn Viðar Egilsson kveðst ósáttur við framferði SÍ sem neitar honum nú um aukna heimild á strimlum sem hann notar til að mæla blóðsykur. Samsett mynd

Þráinn Viðar Egilsson kveðst afar ósáttur við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sem hafa nú í tvígang hafnað beiðni hans um aukna heimild á strimlum til að hann geti mælt blóðsykurinn. Þráinn greindist með sykursýki fyrir rúmlega 21 ári og er þetta í fyrsta sinn sem honum hefur verið neitað um fleiri strimla en hann er nú að verða uppiskroppa með sínar birgðir.

Að sögn Þráins var sett þak á það í janúar á síðasta ári hversu marga strimla sjúkratryggingar afhenda einstaklingum með sykursýki. Stendur hámarksúttekt nú í 3.600 strimlum á ári.

„Ég hef aldrei lent í því að koma að lokuðum dyrum. Ég er bara alls ekki sáttur. Manneskja innan Sjúkratrygginganna sagði mér að það yrðu að koma einhver haldbær rök fyrir að auka heimildina. Eru rökin að ég sé að verða strimlalaus ekki nógu sterk? Mér finnst mjög skrítið að þau rök haldi ekki.“

Mikill auka kostnaður

Þráinn segir það lífsnauðsynlegt fyrir hann að fá strimlana til að geta fylgst náið með blóðsykrinum yfir daginn. Segir hann það varða öryggi og velferð sjúklinga að geta mælt sig reglulega. Hafi honum sjálfum tekist að halda sjúkdómnum í skorðum vegna þess og kýs hann að halda því þannig áfram. 

Eftir að hafa fengið seinni höfnunina talaði Þráinn við sérfræðing á göngudeild Landspítalans sem hafði síðan samband við SÍ til að tala hans máli. Fékk beiðnin enn og aftur lélegar undirtektir stofnunarinnar „Það var bara hart nei líka.“

Stendur Þráinn nú frammi fyrir því að þurfa að fækka þeim skiptum allverulega sem hann mælir sig á dag til að geta átt strimla út mánuðinn. Birgðirnar munu þó aldrei endast honum út árið nema hann standist undir kostnaði sjálfur. Spurður hvað það myndi kosta hann segir hann fimm daga skammt hlaupa á sjö þúsundum krónum. Sé þetta ekki boðlegt enda borgi hann núþegar hátt í 70 þúsund krónur á ári fyrir insúlín.

mbl.is