Oddvitinn kýs ekki með sameiningu

Frá Vík í Mýrdal.
Frá Vík í Mýrdal. Ljósmynd/Sorasak Jiamahasub

„Þetta hafa verið mjög skemmtilegir fundir. Umræðurnar sem skapast og spurningarnar fela eitthvað nýtt í sér á hverjum stað,“ segir Anton Kári Halldórsson, oddviti Rangárþings eystra og formaður samstarfsnefndar um Sveitarfélagið Suðurland.

Samhliða kosningum til Alþingis um aðra helgi verður kosið um sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Ásahreppur.

Unnið hefur verið að sameiningunni um nokkurra missera skeið. Ef íbúar samþykkja sameiningu verður til víðfeðmasta sveitarfélag landsins, 15.659 ferkílómetrar eða um 16% af heildarstærð landsins.

Síðustu vikuna hafa verið kynningarfundir í öllum sveitarfélögunum fimm. Sá síðasti er í kvöld í Rangárþingi ytra. Anton Kári segir að tillagan um sameiningu hafi lengi vel lítið verið í umræðunni en nú sé annað uppi á teningnum. „Fólk er tilbúið að ræða kosti og galla og ég er bjartsýnn að við náum að kynna þetta vel og skilmerkilega. Þá geta íbúar tekið sína eigin upplýstu ákvörðun,“ segir hann og bendir á að á fundi á Kirkjubæjarklaustri á mánudagskvöld hafi 70 manns tekið þátt, ýmist í sal eða í gegnum fjarfundabúnað. Það sé ansi gott hlutfall af þeim 370 sem eru á kjörskrá þar.

Samstarfsnefndin hefur lagt sig fram að kynna bæði kosti og galla við sameininguna. Á fundinum í Vík í Mýrdal í síðustu viku voru fulltrúar sveitarfélaganna spurðir hvort þeir myndu sjálfir kjósa með sameiningunni eður ei. Athygli vakti að Einar Freyr Elínarson, oddviti í Mýrdalshreppi, kvaðst ekki myndu kjósa með sameiningunni. Anton Kári segir við Morgunblaðið að þessi afstaða hafi komið fulltrúum hinna sveitarfélaganna á óvart. „Sérstaklega þar sem hann setti þessa vinnu af stað í upphafi. En að sjálfsögðu hugsar hann bara um hag síns sveitarfélags og metur hvað kemur því best. Það er enginn kali vegna þessarar ákvörðunar.“

Einar Freyr segir í samtali við Morgunblaðið að allir hafi gengið óbundnir til viðræðna um sameiningu. Hann ítrekar að þó þetta sé niðurstaða hans sjálfs hafi vinnan við verkefnið verið unnin af góðum hug.

Á fundinum í Vík sagði Einar að umrædd yfirlýsing hans fæli ekki í sér áskorun til annarra að hafna sameiningunni. Hann kveðst hins vegar sjálfur meta stöðuna þannig að þau tækifæri sem séu til staðar til að halda áfram uppbyggingu í sveitarfélaginu verði best nýtt með því að stjórnsýslan verði áfram í Vík. „Í sameinuðu sveitarfélagi væri ekki endilega tryggt að nægileg áhersla væri lögð á þau brýnu hagsmunamál sem þarf að vinna að hér,“ sagði Einar og kvaðst vísa til byggingar nýs hjúkrunarheimilis og skipulags nýrra hverfa í Vík. Hann bætti við að sá ávinningur sem fengist með stærra sveitarfélagi væri óljós. „Hættan er sú að í stóru sveitarfélagi beri freistingin til þess að hagræða menn ofurliði. Þrátt fyrir að hagræðingin gæti haft í för með sér mikla skerðingu á þjónustustigi á ákveðnum stöðum, til dæmis í þjónustu við eldri borgara.“

Einar Freyr Elínarson, starfandi sveitarstjóri í Vík í Mýrdal, ásamt …
Einar Freyr Elínarson, starfandi sveitarstjóri í Vík í Mýrdal, ásamt Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, Ljósmynd/Stjórnarráðið

Endar ná ekki saman

Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Ásahrepps, segir í viðtali á Facebook-síðu verkefnisins Sveitarfélagsins Suðurland að breytingar séu að verða í tekjumynstri og rekstrarforsendum sveitarfélaga. Hann rekur að Ásahreppur fái ekki lengur framlög úr Jöfnunarsjóði en hreppurinn hefur haft háar tekjur vegna orkumannvirkja. Fólki hafi fjölgað en tekjur staðið í stað. Valtýr segir að það komi að því að hækka þurfi útsvar og fasteignagjöld í sveitarfélaginu.

„Því kostnaður við málaflokkana, hann hefur ekki lækkað heldur hækkað. Þegar meðaltekjur per íbúa lækka líka þá segir það sig sjálft að endar ná ekki saman. Það er því mín sýn að innan eins tveggja ára þurfi að breyta ákvörðunum um skattahlutföll, segir Valtýr. „Í mínum huga er alveg ljóst að það er ekki hægt að halda áfram að óbreyttu,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert