Skiptar skoðanir um Sveitarfélagið Suðurland

Í Þykkvabæ. Flestir íbúar Rangárþings ytra virtust hlynntir sameiningu sveitarfélaganna …
Í Þykkvabæ. Flestir íbúar Rangárþings ytra virtust hlynntir sameiningu sveitarfélaganna fimm, að sögn Þorbjargar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við höfum öll lagt upp með að mynda okkur skoðanir hvert og eitt fyrir sig, af opnum huga og virðingu við verkefnið,“ segir Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri Mýrdalshrepps um sameiningu fimm sveitarfélaga í Sveitarfélagið Suðurland.

Hún bætir við að lagt hafi verið kapp á að kynna sameininguna sem best fyrir bæjarbúum, til að mynda með vefsíðunni Sveitarfélagið Suðurland.

Um er að ræða sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi; Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Ásahrepps. Kosið verður um sameininguna samhliða Alþingiskosningum.

Rætt var um sameininguna á íbúafundi Rangárþings ytra, sem fram fór fyrr í kvöld.

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. Ljósmynd/Aðsend

Kollegi Þorbjargar og oddviti í Mýrdalshreppi, Einar Freyr Elínarson, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að hann myndi ekki kjósa með sameiningunni, en Þorbjörg er hlynnt henni.

„Við Einar deilum kannski ekki skoðun í þessu máli en við berum virðingu fyrir hvors annars skoðun,“ segir hún.  

Verði af sameiningunni mun ný sveitarstjórn taka við í Sveitarfélaginu Suðurlandi eftir sveitarstjórnarkosningar í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert