Furðar sig á að SÍ veiti ekki undanþágu

Fríða Bragadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sykursjúkra.
Fríða Bragadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sykursjúkra. Ljósmynd/Aðsend

Fríða Bragadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sykursjúkra, segir það ekki stórt vandamál meðal sykursjúkra að birgðir þeirra af strimlum sem þeir fá úthlutað af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) klárist. Kvótinn dugar lang flestum en þó furðar hún sig á því að ekki sé hægt að veita undanþágur í þau skipti sem hann gerir það ekki.

 „Fólk fær 3.600 strimla á ári sem eru 10 stykki á dag og það heyrir undantekningu til að slíkt dugi ekki. Hins vegar myndum við vilja sjá að þegar slík tilfelli koma upp að þá eigi að vera hægt að hafa samband við lækni og fá undantekningu,“ sagði Fríða.

Mbl.is greindi frá því í gær að Þráinn Viðar Egilsson hefði í tvígang fengið neitun frá SÍ um aukna heimild á strimlum en hann sér ekki fram á að birgðirnar hans dugi honum út árið. Að sögn Þráins eru strimlarnir honum lífsnauðsynlegir enda séu þeir notaðir til að mæla blóðsykur. Eftir að beiðni hans var hafnað í seinna skiptið talaði Þráinn við sérfræðing á Landspítalanum sem hafði einnig samband við SÍ og fékk hann líka neitun.

Vita ekki um önnur tilfelli

Fríða segir engar kvartanir þess efnist hafa komið í borð samtakanna og að tilfelli Þráins sé það eina sem hún er meðvituð um. Munu samtökin þó taka fyrir þetta málefni á næsta fundi með SÍ.

Að sögn Fríðu var ekki þak á úthlutun strimla áður fyrr. Hins vegar hafi það verið sett á til að takmarka það að stórar birgðir strimla dagi upp í skápum hjá fólki og eyðileggist, en í strimlunum er virkt efni sem rennur út ef þeir eru ekki notaðir innan ákveðins tímaramma. Segir hún það hafa verið kostnaðarsamt fyrir kerfið enda séu strimlarnir dýrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert