Minntust Pelagusslyssins í Vestmannaeyjum

Óttar Sveinsson rithöfundur, sem skrifaði bók um strandið, og Bart …
Óttar Sveinsson rithöfundur, sem skrifaði bók um strandið, og Bart Gulpen, sem var bjargað úr Pelagusi mikið slösuðum. Ljósmynd/Björgunarfélagið

Á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 22. janúar 1982 er lýst skelfingunni á strandstað daginn áður þar sem belgíski togarinn Pelagus lá undir áföllum í fjörunni í Prestabót austanvert á Heimaey. Án þess að eiga nokkra möguleika á að veita hjálp fylgdust tugir björgunarsveitamanna og Vestmannaeyinga með baráttu Kristjáns K. Víkingssonar læknis og Hannesar Óskarssonar sveitarforingja hjálparsveitar skáta upp á líf og dauða um borð í Pelagusi. Þeir fóru um borð til að  bjarga síðasta skipverjanum frá borði, 17 ára gömlum pilti. Festust þeir í veiðarfærum  og fórust. Belgíski sjómaðurinn fór fyrir borð og drukknaði.

Átta voru í áhöfn Pelagusar og var sex bjargað með björgunarstól. Aðstæður voru erfiðar eins og lýst er í blaðinu. Pelagus í fjörunni í 20 til 30 metra fjarlægð frá 12 til 15 metra háum hamravegg. Brimið slíkt að það svipti togaranum til eins og fis. Kristján var 32 ára og Hannes 23. Belgísku sjómennirnir sem fórust voru Gilberts Stevelinck 17 ára og Patrick Maes sem var tvítugur. Var þetta í fyrsta skipti sem menn fórust við björgunarstörf í Vestmannaeyjum og jafnvel á öllu Íslandi í seinni tíð.

Sigurður Þ. Jónsson ávarpar fólkið við minnisvarðann sem Björgunarfélagið sá …
Sigurður Þ. Jónsson ávarpar fólkið við minnisvarðann sem Björgunarfélagið sá alfarið um að reisa. mbl.is/Óskar Pétur

Samkennd

Slysið markaði spor sem ekki hafa mást, í Vestmannaeyjum og Ostende í Belgíu, heimahöfn Pelagusar og Amandine, togarans sem reyndi að taka Pelagus í tog við mjög erfiðar aðstæður eftir að hann varð vélarvana. Þessa var minnst í Vestmannaeyjum á sunnudaginn, fyrst í messu í Landakirkju, síðan við minningarathöfn við minnisvarða um Pelagusslysið sem reistur var fyrr á árinu og loks í fjölmennu kaffisamsæti í Skátaheimilinu. Viðstaddir voru m.a. Frank Arnauts, sendiherra Belgíu á Íslandi með aðsetur í Osló, kona hans og aðstoðarmaður. Einnig Bart Gulpen, einn þeirra sem bjargaðist, þá aðeins 17 ára.

„Þetta hörmulega slys skildi eftir sig djúp sár hjá ættingjum hér í Vestmannaeyjum, uppi á landi og líka í Ostend,“ sagði Sigurður Þ. Jónsson, stjórnarmaður í Björgunarfélagi Vestmannaeyja þegar hann ávarpaði gesti við minnisvarðann sem vígður var fyrr á árinu. „Við höfðum lengi rætt um að reisa minnisvarða um Pelagusslysið en létum verða af því eftir að Útkallsbók Óttars Sveinssonar, Reiðarslag í Vestmannaeyjum kom út fyrir jólin 2017,“ bætti hann við og hafði Björgunarfélagið veg og vanda að hönnun hans, gerð og uppsetningu.

Sendiherrann flutti kveðju frá borgarstjóra Ostend, Bart Tommelein til Eyjamanna fyrir hönd allra íbúa borgarinnar. „Þann 21. janúar  á næsta ári verða 40 ár frá því Ostend og Vestmannaeyjar urðu fyrir þungu höggi. Saga sem snertir alla sem heyra. Hetjurnar, sjómenn sem í kynslóðir sóttu sjó norður í höf og fjölskyldurnar heima. Sjómenn  sem þekktu duttlunga og ógnarkraft hafsins,“ segir í kveðjunni.

Hann lofar framgöngu Eyjamanna, hugrekki þeirra og gæsku við ólýsanlegar aðstæður. „Þarna urðu til tengsl, samstaða og samhugur milli landa okkar sem munu haldast og byggir á djúpri virðingu fyrir þeim sem þarna börðust fyrir lífi sínu.“

Hann eins og fleiri minntist á bók Óttars sem markaði vatnaskil í hugum marga sem sátu eftir með sár á sálinni. Þar er sagan sögð frá öllum hliðum og fyrir marga var léttir að fá tækifæri til að segja frá. Það sama má segja um minningarathöfnina og kaffisamsætið í Skátaheimilinu. Samkenndin var næstum áþreifanleg.

Í dag er togarinn Amandine safn í Ostend  er orðinn safngripur sem raunverulegur minnisvarði um það sem gerðist fyrir tæpum 40 árum.

Það var tilfinningum þrungið þegar Bart og Elísabet Arnoddsdóttir hittust.
Það var tilfinningum þrungið þegar Bart og Elísabet Arnoddsdóttir hittust.

Þau gerðu allt fyrir mig


„Ég var mikið slasaður og man lítið eftir mér á Sjúkrahúsinu nema að þar fékk ég mjög góða umönnun,“ segir Bart Gulpen þegar hann hitti Elísabetu Arnoddsdóttur, hjúkrunarfræðing. Hún var ein þeirra sem tóku á móti skipbrotsmönnunum af Pelagusi á Sjúkrahúsinu. 

„Þau gerðu allt fyrir mig og voru einstaklega vinaleg. Það sem ég man, er að okkur var hjúkrað af mikilli natni og fyrir það er ég mjög þakklátur enn þann dag í dag. Ég er líka mjög ánægður að mér var boðið hingað og hitti allt fólkið. Það skiptir mig miklu,“ segir Bart þegar hann er spurður um athöfnina.

„Ég man vel eftir honum, hann var svo ungur, bara 17 ára gamall. Við elskuðum öll að hjálpa þeim og þetta var dagur sem aldrei gleymist,“ segir Elísabet þegar hún rifjar upp örlagadaginn veturinn 1982.

Það kom öllum á óvart þegar Frank Arnauts, sendiherra færði …
Það kom öllum á óvart þegar Frank Arnauts, sendiherra færði Karli Axel glataðri afsteypu af orðu sem Kristján faðir hans fékk fyrir björgunarafrek. mbl.is/Óskar Pétur

Ómetanlegt að hitta fólkið sem kom að björguninni

„Það er mér mikill heiður og er snortinn að vera hér. Fá að taka þátt í minningarathöfn um þetta hörmulega slys nú þegar styttist í að 40 ár eru frá því,“ sagði Frank Arnauts, sendiherra Belgíu. „Það snertir líka að sjá hvað þessi hörmulegi atburður er enn ljóslifandi í hugum fólksins hér. Maður fann fyrir hlýjunni í messunni og ekki síður við minnismerkið sem er mjög fallegt. Einstakt framtak Björgunarfélagsins sem hafði veg og vanda að gerð þess og uppsetningu. Það er líka ómetanlegt að hitta fólkið sem kom að björguninni. Sjá hvað Eyjamenn halda vel utan um hvern annan og eru gestrisnir.“

Með sendiherranum voru kona hans og  Bart Gulpen. „Það snerti okkur djúpt, viðtökurnar sem Bart fékk og hvað hann er fólkinu kær. Vil ég koma á framfæri miklu þakklæti til Vestmannaeyinga fyrir móttökurnar núna og ekki síður þá velvild sem landar okkar mættu hjá ykkur fyrir bráðum 40 árum,“ sagði sendiherrann sem kom gestum á óvart þegar hann kallaði son Kristjáns heitins, Karl Axel upp og afhenti honum afsteypu af orðu sem föður hans var veitt fyrir björgunarafrek en hafði glatast.

Óskar Elías Sigurðsson, faðir hans Sigurður Agnar Sigurbjörnsson, Ármey Óskarsdóttir, …
Óskar Elías Sigurðsson, faðir hans Sigurður Agnar Sigurbjörnsson,   Ármey Óskarsdóttir,  Guðjón Örn Guðjónsson, Jóhanna Kristín  Guðlaugsdóttir, Hildur Hrönn Zoega Stefánsdóttir  og Óskar Elías Óskarsson.

Lífið heldur áfram


„Við erum mjög þakklát fyrir daginn og Sigurði Þ. Jónssyni og Vigdísi Rafnsdóttur og Björgunarfélaginu í heild sem sáu um undirbúning,“   sagði Óskar Elías Óskarsson, bróðir Hannesar sem fórst við björgunarstörf í Pelagusslysinu. „Það var líka gaman að sjá hvað margir mættu og það skiptir okkur miklu máli. Auðvitað var sorgin mikil að missa Hannes og ekki síst fyrir foreldra okkar. Pabbi sagði, höldum okkar striki í daglega lífinu og á kvöldin og um helgar getum við haldið utan hvert annað og rætt málin. Þegar ég tók utan um Bart, sagði ég að lífið héldi áfram og það hefur það ert.“

Orðan eins og þruma úr heiðskíru lofti

„Þetta var yndisleg athöfn, það var einstakt að upplifa þá miklu hlýju sem ég sá í augum björgunarsveitarmanna og annarra sem þekktu pabba minn. Það flæða fram tilfinningar að heyra sögur frá þeim og ekki síður honum Bart sem ég hitti nú í annað skiptið,“ sagði Karl Axel Kristjánsson. 

Á myndinni eru hálfbræður Kristjáns K. Víkingssonar. Arnór Víkingsson læknir …
Á myndinni eru hálfbræður Kristjáns K. Víkingssonar. Arnór Víkingsson læknir til vinstri og Magnús Þorkelsson skólameistari við Flensborg til hægri. Fyrir miðju er fjölskylda Karls Axels Kristjánssonar, Irina Timchenko sem heldur á Elvari Loga, Kristján Alexander fyrir framan og Karl Axel. mbl.is/Óskar Pétur


„Hann var einn af sjómönnunum um borð, aðeins sautján ára gamall og það sést hve mikil áhrif þetta hefur haft á hans líf. Við áttum mjög gott spjall. 

Svo var ég mjög snortinn þegar Frank sendiherra Belgíu afhenti mér afsteypu af orðunni sem pabba var veitt fyrir björgunarafrek en var stolið frá mér þegar ég bjó erlendis. Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og var einstaklega fallega gert af þeim yndislegu hjónum.“

Börðust heila nótt fyrir lífi sínu


,,Mér finnst áhrifamikið að sjá hvað tengslin eru orðin sterk og góð á milli Vestmannaeyinga og Belga eftir að bókin var skrifuð og minnisvarðinn reistur. Þeir sem komust af úr slysinu og björgunarmenn þeirra hafa nú hist og rifjað upp - einnig hjúkrunarfólk, slökkviliðsmenn, lögregla og aðrir íbúar á Heimaey,“ sagði Óttar Sveinsson sem var viðstaddur athöfnina. 

„Atburðurinn, þegar Pelagus strandaði og menn börðust heila nótt fyrir lífi sínu lifir ævilangt með fólkinu. Ég veit að Bart Gulpen hefur í áratugi verið dapur yfir því að íslenskir björgunarmenn hafi látið lífið við að bjarga honum og félögum hans. Hann kemur nú hingað í annað skiptið – nú á mótorhjólinu sínu alla leið frá Belgíu og ætlar að eyða meiri tíma í Eyjum þegar hann hættir að vinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert