Skólastarf í Fossvoginum í lamasessi vegna myglu

Starfsemi Kvistaborgar verður flutt í Safamýrarskóla
Starfsemi Kvistaborgar verður flutt í Safamýrarskóla mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er óásættanlegt að allt skólastarf í Fossvoginum fari ekki fram lengur þar, eða megnið af því,“ segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.

Börn í Fossvogsskóla stunda nú nám tímabundið í skúrum við skólann meðan á framkvæmdum stendur en að öðru leyti þurfa foreldrar að leita í önnur hverfi til þess að börnin geti stundað nám.

Öll starfsemi leikskólans Kvistaborgar færist tímabundið í húsnæði Safamýrarskóla frá og með þriðjudeginum vegna myglu- og rakaskemmda.

„Ég myndi vilja fara í allsherjaruppbyggingu á Kvistaborg og færa leikskólann í nútímahorf,“ segir hún og bætir við að kostnaðarmat á framkvæmdunum liggi ekki fyrir.

„Ég hefði viljað sjá kostnaðarmat á framkvæmdum vegna myglunnar sem er komin upp núna og hvað það kostar okkur að uppfæra skólann og nútímavæða hann,“ segir hún og bætir við að ekki liggi heldur nein kostnaðaráætlun fyrir hvað varðar Fossvogsskóla.

Myglan kom fyrst upp 2017

Mygla kom upp í húsnæði Kvistaborgar fyrst árið 2017 og var þá ráðist í endurbætur á húsnæðinu en árið 2020 vaknaði á ný grunur um myglu í húsnæðinu og hafði leikskólastjóri því sjálfur samband við verkfræðistofu og óskaði eftir sýnatökum, líkt og Valgerður rakti í grein sinni í apríl á þessu ári.

„Um mitt sumar 2020 greinist mygla eftir sýnatöku sem leikskólastjórinn óskaði eftir. Hins vegar þar sem niðurstöðurnar voru sendar beint til Reykjavíkurborgar var leikskólastjórinn ekki upplýstur um niðurstöðurnar fyrr en í mars 2021,“ rekur Valgerður í greininni.

Ráðist verður í framkvæmdir á húsnæðinu en vonast er til að skólastarfið færist aftur í Fossvogsdalinn fyrir jól.

Finnst þér líklegt að það gangi eftir?

„Ég er hrædd um að það verði ekki gerð nægilega góð úttekt á skólanum,“ segir hún en slík var raunin í Fossvogsskóla og árið 2017, þegar fyrst kom upp mygla í Kvistaborg. „Sporin hræða þegar myglumál eru annars vegar í Reykjavík,“ segir Valgerður að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »