Skömm á ekki að ríkja um þessi mál

Fanney og Svava segja að það sárvanti fjölbreyttar batasögur í …
Fanney og Svava segja að það sárvanti fjölbreyttar batasögur í umræðuna um sjálfsskaða og sjálfsvíg. Bókin fæst í bókabúðum og hjá Hugarafli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

September er alþjóðlegur mánuður sjálfsvígsforvarna. Félagasamtökin Hugarafl gefa í dag út bókina Boðaföll, en bókin sýnir fram á nýjar nálganir varðandi sjálfsvígsforvarnir og sjálfsskaða, byggðar á reynslu höfunda.

Kveikjan að þessari bók er sú að við hjá Hugarafli höfum setið á mörgum viðburðum og þingum sem tengjast geðheilbrigðismálum og þá sérstaklega með áherslu á ungt fólk í vanlíðan. Við vorum oft eina unga fólkið í salnum og nánast aldrei var fólk að tala um persónulega reynslu uppi á sviði. Þar var forstöðufólk úrræða eða annað ráðafólk. Það sem fyllti mælinn hjá okkur var pallborð þar sem spurt var: Hvers vegna líður ungu fólki illa? Engin ung manneskja var á sviðinu til að svara,“ segja þær Svava Arnardóttir og Fanney Björk Ingólfsdóttir, tvær af sex höfundum bókarinnar Boðaföll, en hún sýnir fram á nýjar nálganir varðandi sjálfsvígsforvarnir og sjálfsskaða byggðar á persónulegri reynslu höfunda. Félagasamtökin Hugarafl gefa bókina út og hinir höfundarnir eru Agla Hjörvarsdóttir, Harpa Sif Halldórsdóttir, Hrefna Svanborg Karlsdóttir og Sigurborg Sveinsdóttir.

„Við vildum snúa þessum áherslum við og Hugarafl var með viðburð fyrir tveimur árum þar sem voru pallborðsumræður ungs fólks með persónulega reynslu af sjálfskaða, sjálfsvígshugsunum og sjálfsvígstilraunum. Ráðafólkið sem venjulega sat í pallborðinu var í hópi áhorfenda og áheyrenda. Í kjölfar þess komumst við að því að við sem höfum þessa reynslu, eigum svo margt sameiginlegt, þótt hver og ein persónuleg reynsla sé sérstök. Sameiginlegu þræðirnir gáfu til kynna að þetta er samfélagsmein og að breytinga er þörf. Skoða þarf þessi mál í stærra samhengi og spyrja: Hvað er hjálplegt, byggt á persónulegri reynslu fólks?“

Sett í óvirkt hlutverk

Eitt af því sem þær segja að þurfi að breyta í samfélaginu og heilbrigðisþjónustunni, er krafan um greiningar til að fá hjálp í geðheilbrigðiskerfinu.

„Okkar reynsla er sú að greining er einungis kerfisstimpill en segir ekkert um rót vandans og ekki heldur um hvað er hjálplegt. Einnig getur ákveðinn skaði fylgt því að fá greiningu. Mörg okkar upplifa að fá mismunandi greiningar á mismunandi tímum, af því líðan okkar var mismunandi og ólíkir fagaðilar greindu okkur. Með greiningu er fólk sett í óvirkt hlutverk, það vonast eftir að einhver komi og bjargi sér. Skilaboðin eru líka að þú sért brotin og ómögulegur einstaklingur sem þurfi að meðhöndla. Við höfum séð hér í Hugarafli að vandinn er ekki bundinn við okkur sem einstaklinga, heldur er það jaðarsetningin, mismununin, fordómar og ójöfnuður í samfélaginu sem gerir það að verkum að fólk upplifir vanlíðan. Mikil vanlíðan fylgir því þegar fólk hefur orðið fyrir áföllum og ofbeldi. Við pössum inn í marga ólíka jaðarsetta hópa, hvert með sínum hætti, en sjúkdómsvæðingin er ekki rétta nálgunin. Annað sem við viljum breyta er að það sé upplýst samþykki og samtal um alla þætti geðlyfjaávísana. Við viljum standa fyrir að margir valmöguleikar séu í boði til að velja úrræði og að upplýsingar um kosti og galla séu veittar. Á hverju byggir tiltekin lausn samanborið við einhverja aðra, hverjar eru aukaverkanir lyfja og hvernig mun ganga að hætta á þeim.“

Þarf ekki að berjast alla ævi

Þær segja að í bókinni sé fjöldi tilvitnana í annað fólk en þær höfundana og það sé af ýmsum kynjum.

„Í sameiginlegu skrifunum erum við að horfa á þetta út frá víðu sjónarhorni. Kaflarnir eru til dæmis um samfélagið og rót vandans, um bernskuna og uppeldisárin, um völd, geðheilbrigðiskerfið og fleira. Við erum að tala fyrir því sem er hjálplegt og um það sem okkur finnst að þurfi að breyta. Inn á milli eru beinar tilvitnanir í fólk undir nafni, því það á ekki að ríkja skömm um þessi mál. Við viljum opna umræðuna. Við leggum ríka áherslu á að um er að ræða raunverulega þjáningu þó við höfnum geðsjúkdómastimplunum og það sárvantar fjölbreyttar batasögur í umræðuna. Við viljum koma því á framfæri að við þurfum ekki að berjast við þetta það sem eftir er ævinnar. Því miður hefur umræða tengd sjálfsvígum verið á þeim nótum í gegnum tíðina, að annaðhvort föllum við fyrir eigin hendi eftir þjáningu og vanlíðan, eða að þessi líðan vari alla ævi. Ég man þegar ég var á þessum stað að það dró töluvert úr minni von að einu skilaboðin sem ég fékk voru þau að fólk eins og ég væri að berjast það sem eftir er ævinnar. Ég væri komin með sjúkdóma og ég ætti því að draga úr kröfum, draga úr framtíðardraumum, sætta mig við og læra inn á nýjan veruleika sem væri kominn til að vera. Þetta reyndist alls ekki rétt,“ segir Svava. Fanney tekur undir þetta og segist hafa fengið tilteknar greiningar og fengið að heyra hverjar batahorfur væru fyrir fólk með slíkar greiningar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert