108 vínflöskur, 253 bjórar og 50 flöskur af sterku

Skrifstofustjóri segir að ekki hafi vaknað grunur um misnotkun starfsmanns …
Skrifstofustjóri segir að ekki hafi vaknað grunur um misnotkun starfsmanns sem tengja megi áfengiskaupum. mbl.is/Árni Sæberg

Könnun á vínbirgðum Bessastaða var framkvæmd í dag eftir að Helga Einarsdóttir, ráðsmaðurinn á Bessastöðum, mætti eftir frí. Þetta segir í svari skrifstofustjóra Bessastaða til fjölmiðla en fyrst var greint frá málinu á vef Ríkisútvarpsins

Þar segir að forsetaembættið eigi 108 vínflöskur, 253 bjóra og 50 flöskur af desertvíni og sterku áfengi. Þá segir skrifstofustjóri að ekki hafi vaknað grunur um misnotkun starfsmanns sem tengja megi áfengiskaupum.

Gestirnir skipti þúsundum

Í svari skrifstofustjórans segir jafnframt að áætlað sé að um átta þúsund gestir komi árlega á Bessastaði og þeir sem þiggi áfengan drykk skipti þúsundum á ári hverju.

Forsetaembættið ákvað að kalla ráðsmanninn úr fríi til þess að framkvæma birgðakönnun eftir að fjölmiðlar greindu frá pistli Sigurðar G. Guðjónssonar þar sem hann velti fyrir sér hvort vín hafi verið tekið með ólögmætum hætti úr vínkjallara Bessastaða af ráðsmanni og emb­ætt­is­manns í starfsliði for­seta á undanförnum árum.

Í pistlinum gagnrýndi Sig­urður embættið og for­seta­hjón­in harðlega vegna þess hvernig staðið var að máli vegna at­viks sem átti sér stað í Par­ís­ar­ferð á veg­um embætt­is­ins árið 2018 og kastaði hann fram þeirri spurningu hvort málið tengdist meintum vínstuldi úr birgðum Bessastaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert