Almenningarnir eru grónir og góðir

Horft yfir grænan afréttinn sem er norður af Þórsmörkinni
Horft yfir grænan afréttinn sem er norður af Þórsmörkinni Ljósmynd/Þorgeir Sigurðsson

„Notkunarréttur bænda hér í sveit á Almenningum er alveg skýr og ástand svæðisins er mjög gott. Við höfum lagt okkur alla fram um landbætur á afréttinum með uppgræðslustarfi og beitin er mjög hófleg,“ segir Guðmundur Viðarsson, bóndi í Skálakoti undir Eyjafjöllum. „Ástand gróðurs á svæðinu er gott og mér er til efs að nokkur afréttur hér á Suðurlandi sé í betra ásigkomulagi. Gagnrýnin sem við höfum fengið er ómakleg.“

Afréttur bænda undir Vestur-Eyjafjöllum eru svonefndir Almenningar, sem eru norður af Þórsmörk. Í sumar gengu þar um 200 fjár, búpeningur sem oft leitar suður í Mörkina enda engar girðingar. Þarna telur Páll Ásgeir Ásgeirsson, fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands, Skógræktina bregðast hlutverki sínu, eins og sagði frá í Morgunblaðinu sl. mánudag. Þórsmörk sé friðað land og samkvæmt lögum megi ekki beita sauðfé þar. Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, segir Þórsmörk þó vel þola ágang sauðfjár enda þótt slíkt hægi lítið eitt á framvindu birkiskóga.

Eyjafjallabændur gerðu árið 1989 samkomulag til 10 ára við Landgræðsluna um beitarfriðun í Almenningum. Raunar var fé ekki rekið til sumarbeitar inn á svæðið aftur fyrr en 2012 – og þá skv. kvóta sem svonefnd ítölunefnd setti, það er um 200 kindur.

Svæðið þoli fleira fé

„Svæðið ætti að þola fleira fé og meiri beit. Landgræðsla gætir ekki meðalhófs í samstarfi við okkar bændur um Almenninga, sem tilheyra einhverjum 25-30 jörðum hér niðri í sveit,“ segir Guðmundur. „Síðan ber að halda því til haga að Skógræktin lét fljótlega eftir að friðunin tók gildi fjarlægja girðingu sem skildi að afrétt og Þórsmörk svo féð rennur þarna á milli, sem að mati þeirra sem best þekkja er skaðlítið. Gagnrýnendur úr ferðaþjónustu, sem þarna gera út gönguferðir og annað sport á svæði sem er afréttareign bænda, hafa hins vegar hátt. Slíkt kann ég mátulega að meta.“

Afrétturinn norðan Þórsmerkur er um 5.000 hektarar, vel gróið svæði í jöklanna skjóli. „Okkur bændum er mjög annt um þennan stað og ræktunarstarf þarna hefur skilað miklu,“ segir Guðmundur Viðarsson. Í sumar hafi Eyjafjallabændur dreift fræi og nærri 40 tonnum af áburði á Almenninga og eftir sumar með jafnvægi í veðráttu og hóflegri sauðfjárbeit sé útkoman góð. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert