Brenndi 14 þúsund kaloríum á ferð yfir Ísland

Payson McElveen þveraði landið á undir sólarhring. Telur hann líklegt …
Payson McElveen þveraði landið á undir sólarhring. Telur hann líklegt að um met sé að ræða. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er eins og að vera á annarri plánetu. Þetta er mjög öfgakennt umhverfi sem ég ber virðingu fyrir og maður vill næstum ekki vera þar of lengi. Maður fer upp, nýtur verunnar og svo þarf maður að fara aftur í skjól eins fljótt og hægt er,“ sagði Payson McElveen, utanvegahjólreiðakappi og Red Bull íþróttamaður, um hálendi Íslands en hann gerði sér lítið fyrir á dögunum þegar hann hjólaði þvert yfir landið, frá Akureyri að Vík í Mýrdal, á innan við sólarhring.

McElveen ólst upp í Austin í Texas Bandaríkjunum og hefur lengi langað að koma til landsins en að sögn hans var það fyrir tilstilli vinar hans og ljósmyndara Chris Burkard sem hann lét verða af því. McElveen er mikill keppnismaður að upplagi og hófu því vinirnir að skipuleggja áhugaverða hjólreiðaferð sem væri með einhverskonar markmiði. Var þverun landsins lokaniðurstaða.

Leiðin sem McElveen hjólaði þvert yfir Ísland.
Leiðin sem McElveen hjólaði þvert yfir Ísland.

Mcelveen lagði af stað við Akureyrarkirkju klukkan korter yfir fjögur, aðfaranótt laugardags og lauk henni eina mínútu fyrir miðnætti þann sama sólarhring, í Vík í Mýrdal. Tók því ferðin alls  19 klukkustundir og 45 mínútur en hún spannaði alls 407 kílómetra, þar af voru 223 kílómetrar á ómalbikuðum vegi. Að sögn McElveen var meðalhraði hans rétt undir 14 mílum á klukkustund, sem gera rúmlega 22 kílómetrar á klukkustund. Veit hann ekki til þess að einhverjum hafi tekist þetta á skemri tíma og þykir honum líklegt að um met sé að ræða. 

Íslenska veðrið stærsta áskorunin

McElveen er reyndur utanvegahjólreiðamaður og hefur ferðast víð. Þrátt fyrir það hefur hann aldrei upplifað umhverfi í líkingu við hálendi Íslands og því margar ófyrirséðar áskoranir sem hann þurfti að takast á við. Hafi það til að mynda komið honum á óvart hve gróft yfirborð fjallaveganna var í raun og veru. Líkir hann þeim við þvottabretti sem erfitt var að hjóla á til lengri tíma. Ferðin tók því verulega á en að sögn íþróttakappans brenndi hann rúmlega 14 þúsund kaloríum á meðan henni stóð.

Tökulið fylgdi honum hluta leiðarinnar en stuttmynd er væntanleg í …
Tökulið fylgdi honum hluta leiðarinnar en stuttmynd er væntanleg í október. Ljósmynd/Aðsend

„Að hjóla þetta var eins og að refsa líkamanum klukkutímunum saman. [...] Ísland er fallegasti staður sem ég hef komið á en þetta er líka öfgakenndasti staðurinn. Það eru svo margt einstakt við jarðfræðina, umhverfið og loftslagið. Það komu því fram margar nýjar áskoranir en ég myndi segja að stærsta áskorunin hafi verið veðrið.“

Segir hann mótvind, stöðuga rigningu og kuldann hafa hægt á ferðum hans og lengt pásurnar.

„Svo kom það fyrir að hendurnar mínar höfðu kólnað mjög mikið því hanskarnir mínir voru gegnvotir. Ég átti mjög erfitt með að komast í vasann minn. Ég þurfti að stoppa því hendurnar mínar skulfu svo mikið, svo hægt og rólega sótti ég mat úr bakpokanum sem var mjög sársaukafullt. Yfirleitt væri þetta fimm mínútna stopp en vegna þess að mér var svo kalt þá tók þetta næstum hálftíma. Ég vissi áður en ég lagði af stað að það yrðu einhverjar ófyrirséðar áskoranir sem yfirleitt væru ekki til staðar þar sem ég hef gert svipað áður en það var líka hluti af gamninu. Það var mikil spenna sem fylgdi því að fara út í óvissuna og glíma við þessar áskoranir þegar þær birtust.“

Ljósmynd/Aðsend

Spurður hvort íslensk náttúruöfl, jökulhlaup og yfirvofandi hætta á fleiri eldgosum, hafi vakið upp óhug á meðan ferðinni stóð, segir McElveen ekki svo vera. Segir hann yfirvegun Íslendinga gagnvart þessum náttúrufyrirbrigðum hafa róað taugar hans, enda virðist eldfjallavirkni vera orðinn hluti af hversdagslífinu hér á landi.

„Íslendingarnir minnkuðu áhyggjur mínar en á sama tíma er þetta samt alltaf eitthvað sem maður er meðvitaður um þegar maður er uppi á hálendinu. [...] Veðrið var örugglega meira áhyggjuefnið en nokkuð eldgos því ég veit hversu erfiðir stormarnir á hálendinu geta verið og ég veit hvað hitinn getur verið fljótur að lækka.“

Stefnir á að koma aftur

Stefnir McElveen á að birta stuttmynd um ferðina á streymisveitunni Youtube um miðjan október en tökulið fór með honum hluta leiðarinnar. Kveðst hann spenntur fyrir útkomu verkefnisins enda hafi öfgakennt veðurfar skapað gott myndefni. 

Ljósmynd/Aðsend

Vonast hann til þess að ferðin veiti öðrum innblástur og að fleiri muni láta á þessa vegferð reyna. Hvetur hann þó fólk til að kynna sér aðstæður vel, mæta undirbúið og vera meðvitað um þær hættur sem leynast á hálendi Íslands. Sjálfur hafi hann hlotið mikla leiðsögn áður en hann lagði af stað frá einstaklingum kunnugum staðháttum.

Kveðst McElveen nú hlakka til að koma aftur enda sé þetta ofboðslega fallegur staður. „Við höfum varið þremur vikum hérna og skoðað alveg helling. Við höfum keyrt yfir 1000 mílur, hitt helling af fólki, fengið góða tilfinningu, en ég veit að við höfum einungis séð lítið brot af landinu.“

mbl.is