Eldgosaæfing í Öskju veldur æsingi

Flugumferðarkóðinn yfir Öskju er hér merktur rauður, en eins og …
Flugumferðarkóðinn yfir Öskju er hér merktur rauður, en eins og sjá má er það í æfingaskyni.

Veðurstofan stendur í dag fyrir æfingu þar sem æfð eru viðbrögð við eldgosi í Öskju.

Nokkur æsingur hefur gripið um sig á meðal fólks erlendis, sem fylgist grannt með gangi mála í eldstöðvum hér á landi, og ekki síst eftir þá athygli sem eldgosið í Fagradalsfjalli hefur vakið.

Í hópum á Facebook, sem hafa undanfarna mánuði verið undirlagðir upplýsingum og ábendingum um nýjustu vendingar á Reykjanesskaga, tók fólk í morgun að velta fyrir sér hvort gos væri hafið í Öskju.

Meðal annars hefur verið vísað til upplýsinga sem birtar voru á vefnum Volcano Discovery í morgun, þar sem ráða mátti að eldgos væri hafið í Öskju. Þar virðast hráar upplýsingar hafa verið teknar frá Veðurstofunni án þess að geta þess að um æfingu væri að ræða.

Margt áhugafólk um eldfjöll fylgist náið með þeim vef.

Upplýsingarnar sem vefurinn Volcano Discovery tók upp og birtir lesendum …
Upplýsingarnar sem vefurinn Volcano Discovery tók upp og birtir lesendum sínum.

Kveða orðróminn í kútinn

Þá var einnig litið til þess að flugumferðarkóðinn yfir eldfjallinu er rauður á vef Veðurstofunnar, jafnvel þó skilmerkilega sé tekið fram á kortinu að kortið sé vegna æfingar.

Þeir sem betur vita, þar á meðal starfsmenn Veðurstofunnar, hafa í kjölfarið reynt að kveða þennan orðróm í kútinn á Facebook. Virðist það hafa gengið vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina