Framhlaup af hrauni í nótt

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Baldur Arnarson

Framhlaup af hrauni sem safnast hafði saman í pollum varð í nótt við eldgosið í Geldingadölum. Nokkur virkni hefur verið í eldgosinu undanfarna daga en svipað framhlaup átti sér stað fyrir örfáum dögum þegar hraun rann niður í Nátthaga. Atburðurinn í nótt var þó ekki jafn umfangsmikill, að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings, hjá Veðurstofu Íslands. 

„Leiðigarðurinn heldur enn þá og það hefur ekkert runnið niður í Nátthagakrika sjálfan.[...] Þetta er framhlaup af hrauni sem hafði safnast saman í pollum. Hraðari framrás heldur en venjulega,“ segir hún. 

Að sögn Salóme var eitthvað af fólki á svæðinu en engan sakaði þó. Segir hún þó varhugavert að þvælast mjög nálægt enda er ekki ólíklegt að þessi atburður endurtaki sig. Geti hraunið þá farið á mikla hreyfingu. „Eins og í vikunni þá var þetta að hreyfa sig þrjá metra á sekúndu sem er nokkuð hratt, meira en gönguhraði. Þetta var nokkuð hratt framhlaup.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert