Leggja til opnun sendiskrifstofu í Póllandi

Frá vinstri: Janus Arn Guðmundsson, Gréta Ingþórsdóttir, Grazyna María Okuniewska …
Frá vinstri: Janus Arn Guðmundsson, Gréta Ingþórsdóttir, Grazyna María Okuniewska formaður og Guðlaugur Þór. Ljósmynd/Aðsend

Lagt er til að opnuð verði sendiskrifstofa í Varsjá eða einn starfsmanna sendiráðs Íslands í Berlín hafi reglubundna viðveru í Póllandi að mati starfshóps á vegum utanríkisráðuneytisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en starfshópurinn gaf út skýrslu í dag að nafni Vinátta og vaxtarbroddar: Samskipti Íslands og Póllands.

Ellefu tillögur fyrir ráðherra

Starfshópinum, sem skipaður var af Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í september 2019, var falið að greina tvíhliða samskipti ríkjanna og leggja til aðgerðir sem hægt verður að framkvæma á næstu árum.

Hópurinn leggur til ellefu tillögur fyrir ráðherra til að taka til athugunar. Allar snúast þær um að styrkingu samskipta Íslands og Póllands.

Meðal annars er lagt til að stutt verði við aukin viðskipti ríkjanna, samstarf í sjávarútvegi, útflutning á íslenskri þekkingu á sviði orkumála og jarðvarma í Póllandi, samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála, mennta- og menningarmála og heilbrigðismála.

Kortleggja framtíðarsamskipti

Grazyna María Okuniewska, formaður starfshópsins segir í formála skýrslunnar að þau voni að þau hafi lagt ákveðinn grundvöll fyrir íslensk stjórnvöld til að kortleggja framtíðarsamskipti Íslands og Póllands. Meginverkefnið hafi verið að draga upp mynd af samskiptum þjóðanna og gera tillögur að hvernig efla megi þau á komandi árum.

„Ég þakka öllum þeim sem lögðu starfshópnum lið, komu á fundi hans eða svöruðu fyrirspurnum um ýmislegt sem varðaði efni og inntak skýrslunnar. Þá þakka ég einnig fulltrúum í starfshópnum fyrir vel unnin störf,“ segir Grazyna.

Skýrslan í heild sinni á vef stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert