Stakk mann í sköflunginn með skrúfjárni

mbl.is/Eggert

Landréttur staðfesti í dag dóm yfir manni sem sakfelldur hafði verið í héraði fyrir hótanir umferðarlagabrot, sérstaklega hættulega líkamsárás og fíkniefnalagabrot.

Börn á heimilinu

Hann hafði játað sakargiftir í héraði, þar á meðal að hafa  slegið  brotaþola í  höfuðið  með  skralli  úr  topplyklasetti og hótað að beita hamri, fyrir utan einn ákærulið þar sem honum var gert að sök að hafa stungið mann í sköflunginn með skúfjárni þann 9. mars árið 2019 í Reykjavík. Fram kemur í dómi héraðsdóms að börn hafi verið á heimilinu þegar árásin átti sér stað. 

Maðurinn var sömuleiðis sakfelldur fyrir umferðalagabrot með því að hafa ekið bifreið óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa fíkniefna. Þá fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 0,64 grömm af amfetamíni. 

Ekki blóð á skrúfjárninu

Í  dómi  Landsréttar er framburður læknis fyrir héraðsdómi rakinn. Segir í dóminum að  þrátt  fyrir  að  ekki  hafi  fundist  blóð  á  skrúfjárni  því  sem  fannst  á  vettvangi  væri með  vísan  til  annarra  gagna  málsins  hafið  yfir  skynsamlegan  vafa  að sakborningurinn hefði  veitt brotaþola áverka með skrúfjárninu á áðurgreindum stað í átökum þeirra á milli.

Með hliðsjón af skýrslu réttarmeinafræðings fyrir héraðsdómi og lýsingu vitna á aðförum ákærða þótti háttsemi hans samræmast verknaðarlýsingu í ákæru um að hann hefði stungið brotaþola með skrúfjárninu. 

mbl.is