ÁTVR höfðar mál á hendur Arnari

Arnar Sigurðsson og Ívar Arndal.
Arnar Sigurðsson og Ívar Arndal. Samsett mynd

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur höfðað mál á hendur Arnari Sigurðssyni, eiganda Santewines og Sante ehf., til að láta af ólögmætri starfsemi að viðlögðum dagsektum og til viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Málið verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudaginn en fyrirsvarsmaður stefnanda er Ívar J. Arndal forstjóri ÁTVR.

„Þetta er örþrifaráð. Þeir eru búnir að leita allra leiða til þess að fá aðra til þess að vinna fyrir sig lagalegu hliðina,“ segir Arnar en ÁTVR lagði fram kæru til lögreglu í lok júlí en í kærunni var fullyrt að að franska fyrirtækið innheimti 11% virðisaukaskatt af seldum vörum án þess að vera með svokallað virðisaukaskattsnúmer. Sama dag tilkynnti ÁTVR Skattinum meint brot á skatta- og tollalögum.

Í stefnunni segir að ekki sé af öðru að ráða en að persónulegt virðisaukaskattsnúmer Arnars sé notað vegna smásöluviðskiptanna. „Arnar hefur hvorki leyfi til innflutnings áfengis né heildsölu,“ segir í stefnunni. Þá segir einnig að Santewines hafi ekki leyfi til innflutnings áfengis til Íslands.

„Ég náttúrulega sæki um fyrir mitt félag virðisaukaskattsnúmer og fæ því úthlutað frá Skattinum, sem þeir skrá á forsvarsmann þegar um er að ræða erlend félög,“ segir Arnar. „Ég held að Skatturinn sé fullfær um að sinna eftirliti og innheimtu. Ég sé ekki alveg hvert er hlutverk ÁTVR í því sambandi.“

Í kjölfarið lagði Arnar fram kæru á hendur Ívari J. Arndal, forstjóra ÁTVR, fyrir rangar sakargiftir. Arnar segir að það mál liggi enn á borði lögreglu. „Öfugt við ÁTVR sendi ég ekki fyrirmæli til þeirra og segi að málið sé áríðandi og þeim beri að bregðast snarlega við.“

„Nauðugur sá kostur að höfða mál þetta“

Í stefnu ÁTVR segir að hvorki lögregla né Skatturinn hafi brugðist við. „Stefnanda er því nauðugur sá kostur að höfða mál þetta.“

Arnar segir það greinilegt að hvorki saksóknari, lögregla, Skatturinn né sýslumaður hafi brugðist við málflutningi ÁTVR. „Myndi maður ekki aðeins hugsa málið úr því að allir aðilar telja ekki grundvöll til aðgerða. Ég á ekkert sérstaklega von á því að héraðsdómur muni taka vel í þetta,“ segir Arnar og bætir við að ÁTVR þurfi að ráðast í naflaskoðun.

Með stefnu ÁTVR eru gerðar þrjár kröfur. Í fyrsta lagi að Arnari verði gert að láta af þátttöku í smásölu áfengis, að viðlögðum dagsektum sem yrðu 50 þúsund krónur. Sektirnar skulu falla á að liðnum 15 dögum frá dómsuppsögu þar til skyldum hvers þeirra er fullnægt.

Þá skal bótaskylda verða viðurkennd vegna tjóns sem ÁTVR hefur beðið vegna þátttöku fyrirtækisins í smásölu áfengi í vefverslun og að ÁTVR verði dæmd greiðsla fyrir málskostnað.

Allar tekjur renni til ÁTVR

Með bótaréttinum er gerð sú krafa að allar tekjur af smásölu áfengis innanlands skuli renna til ÁTVR í ljósi einkaréttar verslunarinnar. Í stefnunni segir að Arnar hafi lýst sölunni sem verulegri og að velta fyrirtækjanna sé vel á annan milljarð árið 2021.

Arnar segir það vera mjög sérstakt að ÁTVR telja það vera tjón fyrir sig ef viðskiptavinir leiti annað. Þá segir hann það einnig mjög sérstakt að ÁTVR krefjist að sektin renni til þeirra en ekki í ríkissjóð. „ÁTVR hefur aldrei verið falið neitt saksóknara hlutverk eða skattayfirlit eins og þeir eru að stunda.“

Í stefnunni segir að ef Arnar mæti ekki á þingfestingu málsins megi búast við að útivistardómur gangi í málinu. Arnar segir að hann muni að öllum líkindum fara fram á að málinu verði vísað frá. Þá segist hann ekki hafa áhyggjur af lyktum málsins en segir málið hins vegar vera íþyngjandi meðal annars vegna lögfræðingakostnaðar. „Við getum ekki gengið í vasa skattgreiðenda eins og þeir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert