Esjan gránaði í nótt

Myndin er úr safni. Esjan er töluvert minna grá í …
Myndin er úr safni. Esjan er töluvert minna grá í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glöggir vegfarendur veittu því athygli að grátt lag lá efst á Esjunni þegar hún heilsaði borgarbúum í morgun. Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að landsmenn muni finna fyrir haustinu í komandi viku.

Hann segir nokkuð síðan það hafi byrjað að kólna en nýlega hafi aftur tekið að hlýna. Næsta vika verði þó kaldari.

„Það fer að kólna verulega á þriðjudag, þá snýst í norðanátt og á miðvikudag eru haustjafndægur og þá verður norðvestan 13-18 metrar á sekúndu og rigning eða slydda norðanlands. Hiti kannski frá tveimur stigum á láglendi fyrir norðan og upp í níu stig með suðurströndinni,“ segir Björn. 

Frost við Gullfoss

Lægsti hiti á landinu síðastliðinn sólarhring mældist á Gullfossi þar sem hann fór niður í -0,1 gráðu. Veðurhorfur næsta sólarhring samkvæmt veðurstofunni:

Vaxandi austan og suðaustan átt, 8-18 m/s seinnipartinn, hvassast suðaustanlands. Rigning sunnan- og vestantil, talsverð um tíma á Suðausturlandi, en lengst af þurrt norðaustanlands. Hægari vindur og skúrir um suðvestanvert landið í kvöldið.

Vestan og suðvestan 5-13 m/s og skúrir á morgun, en sunnan 8-13 og bjartviðri á Norðausturlandi. Vaxandi suðaustanátt með rigningu sunnan- og vestanlands annað kvöld.

Hiti 7 til 14 stig yfir daginn, hlýjast eystra.

mbl.is