Íslenska Noomi er besta útgáfan

„Mér hefur alltaf fundist Ísland vera landið mitt. Sú Noomi …
„Mér hefur alltaf fundist Ísland vera landið mitt. Sú Noomi sem ég fann á Íslandi sem barn, það er besta útgáfan af henni. Í mörg ár hef ég beðið eftir tækifæri til að finna hana á ný og þetta var tækifærið. Ég fann mig á ný, sönnu mig á einhvern hátt,“ segir Noomi Rapace sem leikur aðalhlutverkið í Dýrinu. Ljósmynd/Særún Norén

Leikkonan Noomi Rapace heillaðist af handriti Dýrsins og ákvað að stökkva á hlutverkið þrátt fyrir að leikstjórinn hefði ekki áður leikstýrt stórri kvikmynd, launin væru lág og myndin á íslensku. Noomi bjó hér á landi sem barn og segist hafa fundið sjálfa sig á ný við gerð myndarinnar.

Þegar ná á tali af heimsfrægum kvikmyndastjörnum þarf að senda nokkra tölvupósta þar til að lokum finnst tími til spjalls. Loks var ákveðið að „hittast“ á zoom klukkan 12.30 á rúmenskum tíma dag einn í síðustu viku. Blaðamaður var að vonum spenntur að spjalla við Noomi Rapace sem leikið hefur í alþjóðlegum kvikmyndum um langt skeið en leikur nú eitt aðalhlutverka í Dýrinu, nýrri íslenkri mynd sem frumsýna á hinn 24. september. Það var því frekar vandræðalegt þegar undirrituð settist við tölvuna, kveikti á zoom og uppgötvaði að hún hefði litið skakkt á klukkuna. Það voru þrír tímar á milli Íslands og Rúmeníu, ekki tveir! Noomi löngu farin, enda nóg að gera í tökum í rúmensku fjöllunum.

Daginn eftir var gerð önnur tilraun sem tókst betur. Noomi bauð góðan daginn á íslensku, með bros á vör. Hún var ekki að kippa sér upp við mistök blaðamanns deginum áður, þvert á móti, hún var algjörlega slök yfir þessu. Sannarlega engir stjörnustælar þar á ferð, enda kom fljótt í ljós að Noomi er með báða fætur á jörðinni; hún er hlý, opin, brosmild og einlæg.

Noomi er nú stödd í Rúmeníu við tökur á bandarísk-evrópskri sjónvarpsseríu sem hún segir vera endurgerð af gömlu kvikmyndinni Django, en með nýju sniði.

  „Þetta er nokkurs konar gamaldags vestri,“ segir Noomi og segir það hafa komið sér vel að vera alin upp í íslenskri sveit og alvön reiðmennsku, en fósturfaðir hennar er Íslendingur og ólst Noomi upp hér á landi í bernsku. Hún talar fína íslensku en við ákveðum að tala saman á ensku því þar er orðaforðinn meiri. Noomi slettir samt af og til íslensku, sérstaklega þegar hún talar um ömmu sína og árin á Íslandi. Ár sem áttu eftir að móta hana og breyta fyrir lífstíð.  

Alvara og leikgleði

Noomi segir að leikstjórinn Valdimar Jóhannsson og kona hans og annar framleiðandi myndarinnar, Hrönn Kristinsdóttir, hafi heimsótt sig í London, en áður hafði hún lesið handritið.

„Þegar ég las það varð ég strax hrifin og svo þegar þau komu höfðu þau meðferðis skissubók með ljósmyndum, teikningum og málverkum sem sýndu hugmyndir Valdimars um þennan heim sem hann vildi skapa með Dýrinu. Ég skoðaði þessar myndir og kvikmyndin lifnaði við í huga mér. Ég ákvað þá að ég yrði að vera með í þessari mynd. Valdimar og Sjón, sem skrifuðu handritið, fóru með mig í vegferð og ég fann strax sterka tengingu við persónuna Maríu og hennar brotna hjarta, vilja hennar og þörfina til að lifa og ná bata. Ég féll alveg fyrir sögunni. Það var aldrei neinn vafi í mínum huga eftir það. Ég hringdi í liðið mitt og sagði þeim að ég væri búin að vera að bíða eftir svona verkefni; þarna gæti ég fundið rætur mínar aftur, farið þangað sem allt byrjaði,“ segir Noomi og á þá við land æsku sinnar, Ísland.

Noomi lék á móti Hilmi Snæ Guðnasyni í Dýrinu, sem …
Noomi lék á móti Hilmi Snæ Guðnasyni í Dýrinu, sem er afar falleg, listræn og tilfinningarík kvikmynd. Ljósmynd/Go to sheep

„Við Valdimar köfuðum með hverjum deginum dýpra ofan í persónu Maríu, að finna hver hún væri. Hver dagur var leit að sannleikanum og þetta var næstum eins og púsluspil sem við þurftum að vinna að saman. Samstarf okkar var mjög náið og það ríkti afar fallegt jafnvægi í því, sem einkenndist annars vegar af djúpri og innilegri alvöru og leikgleði hins vegar.“

Ísland er landið mitt

Nú er þetta hans fyrsta stóra kvikmynd, þú hefur ekkert verið smeyk við að treysta honum?

„Ekkert af mínu fólki, sérstaklega í Bandaríkjunum, skildi mig. Þau sögðu bara: „Bíddu nú aðeins! Þetta er mynd um lamb? Og þessi leikstjóri hefur aðeins unnið að tveimur stuttmyndum? Það eru engir peningar í þessu, hvað er í gangi? Ætlarðu að eyða fimm mánuðum af ævi þinni í þetta?““ segir Noomi og skellihlær.

„Ég svaraði þeim játandi, ég ætlaði að leika í myndinni. Ég vissi það alveg strax, ég hafði það svo sterkt á tilfinningunni að ég ætti að gera þetta. Ég treysti alltaf innsæinu.“

Þekktir þú meðleikarana, Hilmi Snæ og Björn Hlyn?

„Nei, ekki persónulega en ég þekkti til þeirra vinnu. Þeir eru báðir stórkostlegir. Það var í raun furðulegt hversu áreynslulaust okkar samstarf var. Þegar við Hilmir vorum þarna í tökum fyrir norðan, að taka á móti lömbum og keyra traktor, rann þetta svo ljúflega og eðlilega. Ég bjó sem barn á Íslandi og hef alltaf haft sterkar taugar til landsins. Mér hefur alltaf fundist Ísland vera landið mitt. Sú Noomi sem ég fann á Íslandi sem barn, það er besta útgáfan af henni. Í mörg ár hef ég beðið eftir tækifæri til að finna hana á ný og þetta var tækifærið. Ég fann mig á ný, sönnu mig á einhvern hátt,“ segir hún hugsi.

Amma bjargaði lífi mínu

„Ég eyddi hér mörgum sumrum eftir að við fluttum frá Íslandi til Svíþjóðar. Ég vann líka mikið í gróðurhúsinu á Flúðum, þannig að tímanum var skipt á milli þess að vinna við tómatana og ríða út með ömmu. Ég var sveitastúlka,“ segir Noomi og segist koma hingað þegar tækifæri gefst og heimsæki hún þá ömmu sína, ættingja og vini.

„Ég elska íslensku fjölskylduna mína og eins furðulegt og það hljómar er ég miklu tengdari henni en sænsku fjölskyldunni. Ég finn fyrir djúpri tengingu, sem eiginlega ekki er hægt að lýsa með orðum. Amma mín bjargaði lífi mínu. Ég átti í raun enga fjölskyldu í Svíþjóð, bara mömmu mína. Þegar hún giftist Hrafnkeli og við fluttum til Íslands átti ég allt í einu risastóra íslenska fjölskyldu með ömmu sem höfuð ættarinnar. Hún tók mig undir sinn verndarvæng og gerði mig að hluta fjölskyldunnar. Það breytti lífi mínu.“

Hvað lærðir þú af ömmu þinni?

„Að vera duglegur að vinna og vera með stórt hjarta. Að kvarta aldrei. Hún sagði alltaf að allt myndi lagast, að allt yrði í lagi. Sama hvað. Hún kenndi mér að berjast af hörku og gera alltaf mitt besta. Alveg sama hvað það væri; að þvo upp, ríða hesti, leika í stórri Hollywood-mynd. Það væri alveg sama hvað það væri, maður ætti alltaf að leggja sig fram hundrað prósent. Hún sagði alltaf að ef maður kláraði hlutina bara til hálfs þýddi það að einhver annar þyrfti að klára hinn helminginn. Því væri best að gera hlutina sjálfur hundrað prósent. Og ég geri það. Ég heyri rödd ömmu minnar daglega.“

Fann tengingu við dýrin

Talið berst aftur að kvikmyndinni Dýrinu, sem greinilega er Noomi afar hjartfólgin.

 „Þetta er ástarsaga. Saga um barnsmissi og sorg. Sú hjartasorg sem móðir upplifir við barnsmissi er sú versta sem ég get ímyndað mér. Þetta er saga um leiðina til bata og að finna lífið. Myndin er um það hvernig María reynir að finna leið aftur til lífsins. Hversu langt gengur móðir til að ná bata? Og hversu langt gengur hún til að vernda sitt afkvæmi? Hún fer á heimsenda, hún drepur, verður drepin; það eru engin takmörk fyrir því hvað móðir gerir fyrir barnið sitt,“ segir Noomi.

Sorg hennar heltók mig

Var erfitt fyrir þig að tengjast Maríu?

„Alls ekki, það var í raun ótrúlega auðvelt. En það var sársaukafullt. Sársauki hennar tók sér bólfestu í mínum líkama. Ég kvaddi í raun hinn utanaðkomandi heim þegar ég lék í myndinni. Ég hitti engan, fór ekkert og átti mér ekkert félagslíf á þessum tíma. Sársauki hennar og sorg heltók mig og mér fannst ég næstum eins og fangi í þessum tilfinningum. Ég fann fyrir dótturmissi hennar og það var líkamlega sársaukafullt en svo upplifði ég létti. Því sagan er í raun öfug; María byrjar sem dofin kona sem lifir ekki lífinu en endar á að sleppa tilfinningum sínum lausum og hreinsa þær út úr líkama sínum. Þetta er eins konar endurfæðing. Þetta var í raun eins konar vakning fyrir mig persónulega,“ segir Noomi og bætir við að myndin hafi verið skotin í réttri tímaröð og tilfinningarnar því í „réttri“ röð.

Noomi leikur Maríu og segir að sorg hennar hafi heltekið …
Noomi leikur Maríu og segir að sorg hennar hafi heltekið sig. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Hvernig var að taka á móti lambi?

„Mjög dramatískt. Ég var með höndina bókstaflega inni í kindinni,“ segir hún og hlær.

„Ég hafði ekki mikinn tíma til að æfa þetta. Ég var inni í húsbíl þegar kallað var á mig og sagt að það væri lamb að fara að fæðast. Ég þurfti bara að hlaupa inn í hlöðu og taka á móti lambinu. En tilfinningin var mjög eðlileg og svo var bóndinn þarna okkur til halds og trausts og tilbúinn að stökkva til ef eitthvað færi úrskeiðis. Þetta var svipað og þegar ég fæddi son minn; þetta var ósköp eðlilegt allt saman,“ segir hún og hlær.

Hjartað býr í hinu listræna

Nú ert þú heimsfræg leikkona. Hvernig tilfinning er það?

„Ég horfi á mig sem leikkonu fyrst og fremst, frekar en heimsfræga kvikmyndaleikkonu. Ég elska starfið mitt, ég elska að tengjast áhorfandanum og að vinna með öðrum leikurum og kvikmyndagerðarfólki,“ segir Noomi og finnst hún vera á jörðinni þegar hún vinnur með fólki eins og Sjón og Valdimar.

„Ég man eftir í Cannes þegar við sátum saman einn morguninn og mér fannst ég eitthvað svo týnd innan um allt fræga fólkið og frægðina sjálfa og athyglina sem beindist að mér. Sál mín var smá titrandi. Ég settist niður með Sjón og við áttum svo fallegt samtal og mér fannst ég ná aftur jarðtengingu. Ég þarf sífellt að minna mig á af hverju ég er í þessu starfi þannig að ég missi sjaldan sjónar á ástæðunni. Og mér er sama um hina hliðina á þessu. Hjarta mitt býr í hinum listræna kvikmyndaheimi. Það eru myndirnar sem ég vil sjálf horfa á og ég vil halda áfram að vinna að slíkum myndum. Ég hef verið of mikið í hinu; í stóru myndunum. Ég fæ súrefnið úr listrænu senunni,“ segir Noomi.

Hundrað prósent já

Sérðu fyrir þér að leika í fleiri íslenskum myndum í framtíðinni?

„Hundrað prósent já. Við eigum stórkostlegt íslenskt kvikmyndagerðarfólk. Það væri mér heiður að vinna með fleiri Íslendingum. Mig langar líka að lyfta íslenskri kvikmyndalist, en það er ótrúlegt að svona lítið land eigi svona frábært kvikmyndagerðarfólk. Ég myndi vilja vinna aftur með Valdimar.“

Það er kominn tími til að leyfa Noomi að halda áfram að þeysa um á hesti í rúmensku fjöllunum fyrir framan tökuvélarnar. Við kveðjumst og skiptum yfir í íslenskuna. Blaðamaður skýtur inn í að lokum að hann ætli að skrifa handrit og senda henni.

Hún brosir breitt.

„Frábært! Gerðu það!“

Ítarlegt viðtal við Noomi Rapace er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Noomi leikur íslenska bóndakonu í Dýrinu sem frumsýnd verður 24. …
Noomi leikur íslenska bóndakonu í Dýrinu sem frumsýnd verður 24. september.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »