Lögreglan með báðar hendur fullar í nótt

Vanalega er hvert tilfelli, þar sem grunur er um akstur …
Vanalega er hvert tilfelli, þar sem grunur er um akstur undir áhrifum, tiltekið í tilkynningu lögreglu. Það hefur greinilega þótt nægja að þessu sinni að segja bara að nokkrir hafi verið grunaðir um slíkan glæfraskap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega 100 mál voru skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu milli klukkan 17 í gær og 05 í nótt. Allnokkrir ökumenn voru stöðvaðir á tímabilinu vegna gruns um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

Auk þess voru fimm handteknir í Kópavogi og færðir í fangaklefa vegna líkamsárásar. Í gær var tilkynnt um hópslagsmál í Kópavoginum þar sem hafði komið til áfloga milli nokkurra ungmenna, sem fóru sína leið þegar lögregla mætti á vettvang. Ekki segir í tilkynningu lögreglu hvort málin tengist eður ei.

Einn maður var handtekinn í Laugardalnum í gær vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis. Var hann látinn gista í fangaklefa.

Þá var stól kastað inn um rúðu á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur í gær og hljóp gerandi af vettvangi. Svo virðist sem lögregla hafi ekki haft hendur í hári hans, af tilkynningunni að dæma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert