Skrifstofur víkja fyrir opnum rýmum

Verðlaunatillagan gerir ráð fyrir 1.500 fermetra viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið í …
Verðlaunatillagan gerir ráð fyrir 1.500 fermetra viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið í Lækjargötu 1. Framkvæmdir gætu hafist árið 2023. Tölvumynd/Kurt&Pí

Framkvæmdasýsla ríkisins vinnur að endurmati á fyrirhugaðri nýbyggingu sem rísa mun hjá Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg.

Reykjavíkurborg samþykkti nýlega deiliskipulag fyrir hina sögufrægu lóð Lækjargötu 1, svokallaðan Stjórnarráðsreit. Næsta skref er að senda skipulagið til Skipulagsstofnunar og vonast umsækjandinn, Framkvæmdasýsla ríkisins, til að deiliskipulagið verði staðfest og það taki gildi fyrir lok september.

Eins og fram hefur komið hér í blaðinu var ráðist í gerð deiliskipulagsins vegna áforma um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið samkvæmt verðlaunauppdráttum arkitektastofunnar Kurt&Pí ehf. frá árinu 2018. Þótt Stjórnarráðshúsið hafi staðið á þessum stað í 260 ár hefur ekkert deiliskipulag verið til fyrir lóðina.

Á þeim þremur árum sem liðin eru frá því úrslit voru tilkynnt í samkeppni um nýbygginguna hefur farið fram fornleifauppgröftur á lóðinni í samstarfi við Minjastofnun Íslands.

Starfsemin tekið breytingum

Samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslu ríksins hefur starfsemi forsætisráðuneytisins tekið nokkrum breytingum frá því að samkeppnin var haldin og því hefur verkefnið verið í endurmati, sem ljúka mun á næstunni með samningum við hönnuði.

Það endurmat sem hefur verið unnið er m.a. vegna breyttra viðmiða sem Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) vinnur eftir varðandi vinnuaðstöðu í nýbyggingum hins opinbera. Nú er gert ráð fyrir svonefndu verkefnamiðuðu vinnuumhverfi í stað einstaklingsskrifstofa. Í verkefnamiðuðu vinnuumhverfi er gert ráð fyrir minni hópum, t.d. sex til átta manns sem vinna saman í einu rými.

Auk vinnurýmisins hafi starfsmenn aðgang að næðisrýmum, fundarherbergjum og teymisrýmum, símaklefum auk hefðbundinna rýma eins og kaffikróka og mötuneytis. Þá hafa verið skoðaðir möguleikar á stækkun kjallara m.a. vegna aukins tæknirýmis fyrir loftræsingu og varaafl.

Starfsmönnum ráðuneytisins hefur fjölgað síðan samkeppnislýsingin var gerð, upplýsir Framkvæmdasýslan Morgunblaðið. Má þar nefna flutning skrifstofu jafnréttismála sem fluttist til forsætisráðuneytisins frá félagsmálaráðuneytinu. Einnig hafa öryggismál ráðuneytisins verið yfirfarin.

Framkvæmdasýslan gerir ráð fyrir að endurhönnun hússins standi út árið 2022. Gert er ráð fyrir útboði verklegra framkvæmda í ársbyrjun 2023, sem verði lokið um áramótin 2024/25. Verkefnið miðast við heimilaða fjárveitingu. Núverandi friðað Stjórnarráðshús er tvær hæðir og ris, 512 m² brúttó. Viðbygging og tengigangur verða tvær hæðir og kjallari, um 1.500 m² brúttó.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert