Björguðu hreindýri sem flækti sig í girðingu

Tarfurinn var illa flæktur í gamalli rafnmagnsgirðingu, sem ekki lengur …
Tarfurinn var illa flæktur í gamalli rafnmagnsgirðingu, sem ekki lengur var í notkun. Ljósmynd/Björgunarsveitin Vopni

Björgunarsveitin Vopni á Vopnafirði bjargaði hreindýratarfi úr hremmingum snemma í morgun, eftir að útkall barst um að hann hafi fest sig í girðingu. 

Tarfurinn var við Viðfell nærri Selá, og hafði flækt horn sín í rafmagnsgirðingu sem ekki er í notkun lengur. Raunar festust þrjú hreindýr í girðingunni en tvö þeirra náðu að losa sig sjálf, eins og Hrinrik Ingólfsson, formaður Vopna, segir við mbl.is. 

Viðfell nærri Selárdal.
Viðfell nærri Selárdal. map.is

Gamlar girðingar slysagildra fyrir skepnur

„Þetta kom til vegna þess að það var starfsmaður Umhverfisstofnunar sem hafði samband við okkur, sem fékk tilkynningu um að þrír tarfar hefðu setið fastir. Tveir losnuðu en það var aðeins meira vesen á þessum þriðja,“ segir Hinrik. 

Hann segir að tarfurinn hafi ekki verið særður, enda ekki um gaddavírsgirðingu að ræða, en vissulega hafi hann verið svolítið skelkaðir. Hinrik lýsir því hvernig björgunarsveitarmenn róuðu tarfinn niður og fengu hann til að leggjast niður. Þá var leikur einn að klippa vírinn af hornunum og fá tarfinn lausan.

„Hann var voða lítið særður en hann var, jú jú, hann var frekar skelkaður. En þegar var búið að losa hann þá stóð hann stutta stund og horfði á okkur áður en hann fór sína leið,“ segri Hinrik og brýnir fyrir fólki að ganga vel frá girðingum sem ekki eru lengur í notkun.

Tarfurinn þakkaði pent fyrir lífsbjörgina og hélt svo sína leið.
Tarfurinn þakkaði pent fyrir lífsbjörgina og hélt svo sína leið. Ljósmynd/Björgunarsveitin Vopni
mbl.is