Maður reyndi að komast inn í vitlaust hús

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregla hafði afskipti af manni í gærkvöld sem var mjög ölvaður og hafði farið húsavillt. Hann stóð við vitlaust hús og barði það að utan og reyndi að komast inn. Hann var að fyrstu fluttur á lögreglustöð þar sem hans rétta heimilafangs fannst og var honum því ekið þangað.

Lögregla var kölluð til í Vesturbæ Reykjavíkur í gær eftir að kona brenndist þegar heit djúpsteikingarfeiti skvettist á hana. Konan var flutt með sjúkrabíl á bráðadeild Landspítalans með brunasár.

Þá var manni vísað út af þeirri sömu bráðadeild, að því er segir í tilkynningu lögreglu, þar sem hann var til vandræða og neitaði að yfirgefa svæðið þegar starfsfólk bað hann.

Afskipti voru svo höfð af manni í miðbæ Reykjavíkur sem ætlaði að aka bifreið sinni ofurölvi. Vegfarendur komu í veg fyrir að svo færi en þegar lögreglu bar svo að garði brást maðurinn ókvæða við og hafði í hótunum við laganna verði. Hann var því handtekinn og vistaður í fangaklefa sökum þess.

Kona féll á hlaupahjóli og fékk högg á höfuðið við fallið. Lögregla aðstoðaði hana og flutti á bráðdeild Landspítalans.

Fimm ökumenn alls voru stöðvaðir í gærkvöldi vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna og sex hávaðaútköllum var sinnt miðsvæðis í borginni. Þrjú hávaðaútköll bárust í Kópavogi og Breiðholti og þar var einn stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert