Talibanabragur á mörgu hjá Lúther

Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur og fyrrverandi forseti ASÍ.
Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur og fyrrverandi forseti ASÍ. Kristinn Magnússon

„Það er talibanabragur á mörgu hjá Lúther og óhætt að fullyrða að hann standi talibönum í Afganistan nær en almenningi á Íslandi,“ segir Ásmundur Stefánsson, fyrrverandi froseti ASÍ, en hann hefur þýtt bókina Sjö goðsagnir um Lúther eftir danska prófessorinn Frederik Stjernfelt, þar sem Marteinn Lúther er sýndur í ljósi sem fyrir mörgum kann að vera framandi. 

Ásmundur segir Lúther hafa trúað því að allir menn væru eftir syndafallið í eðli sínu illir og syndugir og konur verri en karlar vegna veiklyndis síns sem gerði það af verkum að kölski herjaði frekar á þær. Þar liggur einmitt rótin að nornaveiðum þessara tíma. „Kjarninn í lútherstrúnni er agi, hlýðni og virðing fyrir stöðu sinni í lífinu. Allt yfirvald kemur frá Guði. Þess vegna ber dauðlegum mönnum að hlýða yfirboðurum sínum, jafnvel þótt þeir séu ranglátir. Uppreisnarseggi ber að taka af lífi; þá á að drepa eins og óða hunda. Rökin eru þau að drepa þurfi óðu hundana áður en þeir drepa þig.“

Þetta er mikil nauðhyggja.

„Já, mikil nauðhyggja. Fólk kaupir sér ekki frelsi með aflátsbréfum, ekki heldur með góðverkum. Frelsunin er náðargjöf frá Guði. Þú ræður engu um það sem gerist. Andstaðan við persónuleg réttindi var alla tíð gegnumgangandi í lífsspeki Lúthers. Hann trúði því statt og stöðugt að harðstjórn væri besta stjórnarfarið. Ef svo væri ekki þá hefði Guð gefið okkur annað fyrirkomulag. Án harðstjórnar myndu djöflar vaða uppi.“

Marteinn Lúther hafði ýmsar skoðanir sem ekki eru vel séðar …
Marteinn Lúther hafði ýmsar skoðanir sem ekki eru vel séðar í dag.


Spurður hvort ekki beri að taka tillit til tíðarandans þegar líf Lúthers er skoðað svarar Ásmundur: „Að mínu mati gerir það Lúther ekkert betri sem fyrirmynd að leita skýringa í tíðarandanum. Raunar kemst höfundur bókarinnar að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið íhaldssamari en flest í hans tíðaranda.“

Varla hefur honum verið hlýtt til gyðinga?

„Nei, hann lagði mikið hatur á gyðinga enda þótt lítið væri um þá í Þýskalandi á þessum tíma. Margt af því sem kemur fram í hugmyndum hans um gyðinga er mjög ógeðfellt og minnir um margt á Adolf Hitler. Kynþátturinn varð hjá lútherstrúarmönnum hluti af sköpunarverkinu sem gerði þá móttækilega fyrir þriðja ríkinu. Lýðræði var líka eitur í beinum Lúthers og lútherskan bundin við einræðisríki framan af. Það er ein af ástæðunum fyrir því að kalvínisminn fór á endanum víðar.“

Gekk undir væng nasista

Ásmundur segir af og frá að nasistar hafi þvingað sínum hugmyndum upp á allt fólk; þeir hafi komið inn í samfélag sem fyrir var uppfullt af fordómum. Þá hafi lútherska kirkjan möglunarlítið gengið undir væng nasista og ekki verið í opinni andstöðu við Hitler. „Deilur um stöðu kirkjunnar leiddu til stofnunar játningarkirkjunnar. Úr varð kirkjustríð en játningarkirkjumenn ítrekuðu að þeir væru ekki í andófi gegn Hitler. Þegar heimsstyrjöldinni lauk vildi lútherska kirkjan ekkert með hugmyndir nasista hafa og beitti blygðunarlaust lygum til að hvítþvo sig af tengslum við þá.“

Ásmundur segir sem betur fer lítið eftir í íslenskri kirkju sem sækir til Lúthers sem aftur helgist af því að kirkjan hefur verið ríkisstofnun og fyrir vikið þurft að fylgja ríkisvaldinu og straumum og stefnum í samfélaginu.

Nánar er rætt við Ásmund um Lúther, þjóðfélagsmál, stjórnmál og kosningarnar framundan í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »