Brynjar Níelsson kútveltist af rafskútu

Brynjar var á leið heim úr Valhöll.
Brynjar var á leið heim úr Valhöll. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Aldraðir menn eiga ekki að vera á rafskútum í myrkri,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is eftir að hafa lent í rafskútuslysi á laugardaginn.

Var hann á leið heim að kvöldi, eftir að hafa verið uppi í Valhöll, skrifstofum Sjálfstæðisflokksins, að hringja í kjósendur. „Ég var ekki ölvaður en búinn að fá mér einn eða tvo bjóra að vísu.“

Datt á hausinn og hálfrotaðist

Brynjar, sem er þaulvanur á rafskútum, að eigin sögn, var ekki á mikilli ferð þegar hjólið fór ofan í dæld með þeim afleiðingum að hann kútveltist af því. 

„Ég datt á hausinn og hálfrotaðist.“

Einnig brákaði Bynjar rifbein þar sem hann fékk stýrið í brjóstkassann af nokkru afli. 

„Ég er ekki fallegur í framan, var það ekki fyrir en þetta gerði illt verra,“ segir Brynjar og vísar þá til þess að hann fékk djúpfjólublátt mar á andlitið. 

Situr uppi með áhættuna

Spurður hvort þessi lífsreynsla valdi því að hann sé hlynntur því að leggja bann við rafskútum á kvöldum um helgar, segist Brynjar ekki vera mikill „bannisti“. 

„Það er samt hættulegt að vera á þessu, sérstaklega í myrkri, en þá siturðu bara uppi með þá áhættu.“

mbl.is