Gætu ekki myndað þriggja flokka stjórn

Flokkur fólksins nær inn fjórum þingmönnum miðað við nýjasta þjóðarpúls …
Flokkur fólksins nær inn fjórum þingmönnum miðað við nýjasta þjóðarpúls Gallup, á meðan Vinstri græn missa fimm þingmenn frá síðustu kosningum. mbl.is

Ríkisstjórnarflokkarnir missa meirihluta á þingi miðað við nýjan þjóðarpúls Gallup, en miðað við hann ná flokkarnir aðeins 30 þingmönnum saman. Til að mynda þriggja flokka stjórn þyrfti Samfylkingin að starfa með Sjálfstæðisflokknum en forsvarsmenn þess fyrrnefnda hafa tekið fyrir þann möguleika.

Þetta kemur fram í frétt Rúv.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar milli kannana, en hann er þó stærstur, með 21,2 prósent fylgi. Það kæmi til með að skila honum fimmtán þingsætum, en í síðustu kosningum náði flokkurinn sextán fulltrúum á þing.

Vinstri græn fengu í síðustu kosningum ellefu þingmenn en í þessari könnun mælist fylgi flokksins ekki nema 10,2 prósent sem skilar honum sex fulltrúum á þing.

Flokkurinn með næstmesta fylgið á eftir Sjálfstæðisflokknum er Framsóknarflokkurinn, en hann hefur verið í sókn síðustu vikur og mælist nú með 13,2 prósent fylgi. Með því næði hann níu þingsætum.

Flokkur fólksins bætir við sig

Stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu er Samfylkingin með 12,7 prósent fylgi en það er svipað og flokkurinn fékk í síðustu kosningum og gæfi honum átta fulltrúa á þing.

Ef marka má könnunina sækir Flokkur fólksins sér fjóra þingmenn þar sem hann stekkur úr fimm prósentum upp í sjö prósent fylgi.

Píratar mælast með 11,5 prósent og sjö þingsæti.

Viðreisn mælist með 10,2 prósent og sex þingsæti.

Sósíalistaflokkurinn nær fjórum fulltrúum á þing miðað við þessa könnun, líkt og Flokkur fólksins. Miðflokkurinn mælist með 6,2 prósent fylgi sem gæfi honum líka fjögur þingsæti.

Þriggja flokka stjórn ómöguleg

Miðað við þessar niðurstöður er ljóst að þriggja flokka stjórn væri ekki möguleg nema með samstarfi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Samfylkingarinnar. Samfylkingin hefur aftur á móti útilokað stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Þá væri hægt að mynda fjögurra flokka stjórn en hún yrði ekki möguleg án aðkomu Sjálfstæðisflokksins.

Gallup framkvæmdi könnunina fyrir fréttastofu RÚV dagana 13. til 19. September. Könnunin var netkönnun og lögð fyrir 3.845 einstaklinga. Þáttökuhlutfall var 52,5 prósent.

Útreikningur á úthlutun þingsæta tók mið af niðurstöðum í hverju kjördæmi fyrir sig og var jöfnunarsætum úthlutað miðað við niðurstöður á landsvísu.

mbl.is

Bloggað um fréttina