Glermyndir Gerðar nú aftur í gluggunum

„Verk Gerðar eru djásn byggingarinnar. Nú þegar endurgerð þeirra er lokið er mikilvægur áfangi í höfn,“ segir sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur við Kópavogskirkju. Þýskir glermeistarar luku um helgina uppsetningu viðgerðra steindra glermynda Gerðar Helgadóttur sem eru í gluggunum í bogum kirkjunnar á Kársnesi.

Hringurinn tákn eilífðar

Fyrstu myndirnar voru teknar niður 2018 og fluttar til endurgerðar í glersmiðju svonefndra Oidtmann-bræðra í borginni Linnich í Þýskalandi. Svona hafa gluggar úr hverri hliðinni eftir aðra verið teknir – nú síðast á vesturhlið. Glermyndir Gerðar úr þeim gluggum voru teknar ofan í maí og farið með til Þýskalands. Komið svo með aftur til Íslands og þeir settir upp að nýju sl. laugardag. Þá var búið að hreinsa glerið og setja í nýja ramma, svo meira öndunarrými er milli mynda og rúðuglersins sem er því að baki. Hve lítið þetta bil var áður olli því að glerið í myndunum góðu þandist út og varð mun brothættara fyrir vikið. En nú er allt komið í betra lag og sömuleiðis búið að endurnýja gluggapóstana sem glerið er sett í.

„Glerið í myndunum var unnið upp og hreinsað, svo nú sjást í skýrara ljósi ýmis tákn og helgimyndir sem Gerður vildi hafa með. Þarna má nefna hringinn, sem er tákn eilífðar, og hið alsjáandi auga sem nefnt er í trúarbrögðunum,“ segir sr. Sigurður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert