Mennirnir fluttir á sjúkrahús til skoðunar

Bátur slysavarnafélagsins Landsbjargar var notaður við björgun mannanna í gærkvöldi.
Bátur slysavarnafélagsins Landsbjargar var notaður við björgun mannanna í gærkvöldi. Ljósmynd/Landsbjörg

Vel gekk að bjarga mönnunum er strönduðu slöngubát við Akurey í gærkvöldi. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að samhent átak Gæslunnar, björgunarsveita og lögreglu hafi þurft til. 

Mennina rak á sker við Akurey um klukkan tíu í gærkvöldi með þeim afleiðingum að þeir lentu í sjónum, eins og kom fram í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla í morgun. 

Björgunarbátur Slysavarnafélagsins Landsbjargar var kallaður út ásamt björgunarsveitarfólki en Landhelgisgæslan stýrði aðgerðum á vettvangi. 

Vel gekk að finna mennina og voru þeir fluttir um borð í bát sem sigldi með þá í land. Þar tóku sjúkrabílar á móti þeim og fluttu til skoðunar á sjúkrahúsi. 

Af orðum Ásgeirs að dæma eru þeir ágætlega haldnir þrátt fyrir að hafa verið kaldir og hraktir í gær þegar þeim var bjargað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert