Rostungurinn líklega þekktur vandræðagemsi

Rostungurinn Valli hefur valdið töluverðu eignatjóni undan ströndum Írlands í …
Rostungurinn Valli hefur valdið töluverðu eignatjóni undan ströndum Írlands í sumar. Skjáskot/Youtube

Rostungurinn, sem lét sig liggja í makindum á bryggjunni í Höfn í Hornafirði í gær, er að öllum líkindum þekktur vandræðagemsi sem valdið hefur milljóna tjóni erlendis.

Þar ytra hefur honum verið gefið nafnið Wally, eða Valli.

Írski hvala- og höfrungahópurinn bendir á þetta á vef sínum og tekur fram að myndir af rosmhvalnum, þar sem hann liggur á bryggjunni hér á landi, gefi þetta til kynna.

„Við bíðum eftir fleiri myndum sem gætu hjálpað okkur að ganga úr skugga um þetta, en myndirnar hingað til staðfesta að dýrið er á svipuðum aldri miðað við lengd skögultanna. Einnig sé fölur blettur á vinstri hreifa rostungsins, rétt eins og hjá Valla.

Sökkt tveimur bátum

Á und­an­förn­um mánuðum hef­ur Valli herjað á fjölda smá­báta úti fyr­ir strönd­um Cork á Írlandi. Sela­vina­fé­lag Írlands ákvað að koma rost­ungn­um til hjálp­ar með því að út­vega slöngu­bát eða svo­kallaða tuðru sem Valli gæti klifrað upp á og hvílt sig.

Ágang­ur Valla í leit sinni að hvíld­arstað hef­ur orðið til þess að tveir bát­ar hafa sokkið úti fyrir ströndum Írlands.

Nú virðist hann þó vera að nálgast náttúruleg heimkynni sín og binda má vonir við að hann geti unað sér hvíldar enn norðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert