Stór hluti ferðamanna hunsar viðvörunarskilti

Að sögn Guðrúnar var hér á ferð stór hópur að …
Að sögn Guðrúnar var hér á ferð stór hópur að velta fyrir sér hvort þau ættu að fara áfram fram hjá skiltinu. Þau enduðu á að gera það og flestir fóru upp á jökul. Ljósmynd/Guðrún Gísladóttir

Stór hluti ferðamanna sem fylgst var með á afmörkuðu tímabili við Sólheimajökul hunsaði viðvörunarskilti sem sett hafði verið upp þar til þess að tryggja öryggi fólks. Þetta sýnir nýleg rannsókn sem vísindamenn við Háskóla Íslands og erlent samstarfsfólk unnu og er hluti af norrænu öndvegissetri um náttúruvá og seiglu samfélaga.

Guðrún Gísladóttir prófessor í landfræði segir í samtali við mbl.is það hafi komið henni mikið á óvart hversu litla aðgát ferðamennirnir sýndu en hún ásamt samstarfskonu sinni, Deanna Bird, dvöldu nokkra daga við Sólheimajökul og fylgdust með því hvort ferðamenn virtu skilti á leið á upp á jökullinn. „Sumir horfðu einfaldlega ekki á skiltið.“

Guðrún Gísladóttir prófessor í landfræði og Deanna Bird.
Guðrún Gísladóttir prófessor í landfræði og Deanna Bird. Ljósmynd/Guðrún Gísladóttir

Verkefnið var styrkt af NordForsk sem er stofnun sem styrkir rannsóknasamstarf vísindamanna á Norðurlöndum. Stofnunin studdi m.a. öndvegissetrið NORDRESS en að því kom þverfræðilegur hópur norrænna vísindamanna undir forystu þeirra Guðrúnar Pétursdóttur, fyrrverandi forstöðumanns Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, og Guðrúnar Gísladóttur. Rannsóknin við Sólheimajökul er því hluti af rannsóknum NORDRESS.

Þekking ferðamanna á Kötluvá

Með NORDRESS fengu Deanne og Guðrún tækifæri til þess að halda áfram með rannsóknir sem tengdust doktorsverkefni Deanne.

„Í hennar verkefni höfðum við verið í að skoða upplifun og þekkingu íbúa á Kötluvá. Meðal annars skoðuðum við ferðamenn sem voru að ferðast í Þórsmörk og hvort þeir þekktu til þeirrar vár sem að fylgir Kötlugoss. Sú rannsókn leiddi í ljós að ferðamenn höfðu mikinn áhuga á að vita um Kötlu en þó að þeir fengju betri upplýsingar myndi það ekki fæla þá frá svæðinu heldur gera þá betur undirbúna,“ segir Guðrún og bætir við að upplýsingaskilti á því svæði útskýrðu hættuna ekki nægilega vel.

Hún segir það stafa af því að sveitarfélögin vildu ekki hræða ferðamenn um og of. „Það voru hins vegar ekki áhyggjur ferðamannanna heldur vildu þeir fá góðar leiðbeiningar.“

Björgunarsveitafólki ofbauð

Þá nefnir Guðrún að þær hafi einnig rannsakað hegðun ferðamanna í Eyjafjallagosinu.

„Í viðtölum okkar við björgunarsveitafólk kom í ljós að þeim ofbauð hvernig tími þeirri var nýttur í að hjálpa fólki sem var illa búið. Þeim fannst ferðamennirnir mjög óábyrgir og illa búnir. Þeir hafa bjargað lífi fjölda manns á þessum tíma,“ segir Guðrún og nefnir að lögreglan hafi einnig átt í heilmiklum vandræðum við að halda fólki í skefjum.

Guðrún segir að gífurleg aukning ferðamanna í kjölfar gossins leiddi til þess að hún og Deanne hafi viljað skoða þessa hegðun ferðamanna frekar og hvort það virði leiðbeiningar.

Einungis 153 virtu skiltið vettugi

„Ég og Deanne vorum í vikutíma í júlí við Sólheimajökul þar sem við fylgdumst með því hvort fólk virti viðvörunarskilti þar sem stendur beinlínis varúð hætta og varað við því að jökullinn sé óstöðugur og því geti hrunið úr honum. Á skiltinu var sérstaklega tekið fram að fólk eigi ekki að fara fram fyrir það.“

Á skiltinu er sérstaklega tekið fram að fólk eigi ekki …
Á skiltinu er sérstaklega tekið fram að fólk eigi ekki að fara fram fyrir það Ljósmynd/Guðrún Gísladóttir

Hún segir að alls hafi komið um 1.000 manns í misstórum hópum að jöklinum og viðbrögð gestanna við viðvörunarskiltinu voru æði misjöfn.

Af þeim hópum sem fylgst var með virtu 153 skiltið að vettugi og héldu áfram ferð sinni inn á hættusvæði, 60 hópar sneru við og ellefu hópar klofnuðu þar sem hluti hópsins hélt áfram en hinn hlutinn fór ekki lengra en skiltið.

Guðrún nefnir að jökullinn sé sérstaklega hættulegur nú með hlýnun jarðar þar sem stórgrýti getur meðal annars fallið niður hlíðar hans með litlum fyrirvara.

Viðvörunarskilti hafa verið sett við varnarlínurnar. Ekki er fjallað um …
Viðvörunarskilti hafa verið sett við varnarlínurnar. Ekki er fjallað um hrun úr hlíðum sem er sívaxandi vandamál. Ljósmynd/Guðrún Gísladóttir

„Vissulega er það stórfenglegt að koma þarna á góðviðrisdegi en skiltið segir alveg tvímælalaust að það eigi ekki að fara lengra.“

Upplýsingarnar lykilatriði

Guðrún nefnir hóp ferðamanna sem erlendur leiðsögumaður leiddi. Hópurinn hafi stoppað við skiltið en leiðsögumaðurinn sagt að hann hafi áður verið á svæðinu og engin sérstök hætta steðjaði að. „Það er uggvænlegt að horfa á svona tilvik.“

Hvað heldurðu að þyrfti til þess að ferðamenn virði viðvörunarskilti?

„Það er stóra spurningin. Upplýsingarnar eru lykilatriði. Það þarf að tryggja það að þetta fólk fái nægar upplýsingar og í gegnum eins marga miðla og mögulegt er. Þá þurfa þær líka að vera mjög áberandi á öllum gististöðum svo ferðamenn geti tekið skynsamlega ákvörðun á ferðum sínum um landið.“

Guðrún segir að þessi fjölskylda hafi fylgt leiðbeiningum.
Guðrún segir að þessi fjölskylda hafi fylgt leiðbeiningum. Ljósmynd/Guðrún Gísladóttir

Hún nefnir að einnig þyrfti að skrásetja alla þá ferðamenn sem fara inn á óbyggðir Íslands til þess að hægt sé að bjarga þeim ef eitthvað kemur upp á. „Það þarf að vera einhver stjórn á þessu, það er alveg augljóst.“

Guðrún segir þennan hóp vera til fyrirmyndar þar sem leiðsögumaður …
Guðrún segir þennan hóp vera til fyrirmyndar þar sem leiðsögumaður er með í för og allir eru með hjálm, brodda og ísexi. Ljósmynd/Guðrún Gísladóttir

Þá segir Guðrún það gríðarlega mikilvægt að allir leiðsögumenn séu meðvitaðir um hætturnar. „Mér finnst gjörsamlega fráleitt að það skulu ekki vera íslenskir leiðsögumenn í rútuferðum um landið. Það skiptir máli að leiðsögumenn sem eru að taka að sér ferðir og fara með ferðamenn hafi þekkingu og miðli þeirri þekkingu til ferðamannanna.“

Hafa kynnt niðurstöðurnar fyrir viðbragðsaðilum

Guðrún segir að búið sé að miðla rannsókninni í vísindatímarit. „Við höfum einnig verið í beinu sambandi og kynnt þetta fyrir lögreglunni og almannavarnarnefndum í héraði,“ segir hún og bætir við að þær hafi ekki enn kynnt rannsóknina fyrir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða ferðamálaráði.

Guðrún segir að hún og Deanne, ásamt Emmanuel Pierre Pagneux lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, vinni nú að úrvinnslu á gögnum rannsóknarinnar. „Það er ljóst að við þurfum að koma þessum niðurstöðum áfram til þeirra sem sjá um ferðaþjónustuna.“

Umfjöllun um rannsóknina og öndvegissetrið má finna á vef NordForsk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert