Treysti sér ekki til að halda áfram

Esjan séð frá Kjalarnesi.
Esjan séð frá Kjalarnesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hátt í 80 manns komu að verkefni seint í gærkvöldi þegar sækja þurfti mann á Esjuna sem hafði lent þar í ógöngum í slæmu veðri. Þar af voru um 50 manns í hópum sem voru tilbúnir að fara af stað á fjallið og fóru nokkrir þeirra að leita að manninum.

Maðurinn, sem er Íslendingur, ætlaði að ganga upp Gunnlaugsskarð og yfir Þverfellshorn. Hann var einn á ferð og vel búinn. Veðrið versnaði mjög á göngunni og þegar skyggnið var orðið slæmt, hvassviðrið mikið og maðurinn treysti sér ekki til að halda áfram óskaði hann eftir aðstoð.

Að sögn Davíðs Má Bjarnasonar hjá Slysavarnafélaginu Landsbörg, fór björgunarsveitarfólk á Þverfellshornið og fann hann rétt eftir miðnætti. Skyggnið var eins og áður sagði mjög slæmt en vel gekk þó að finna manninn, sem hafði haldið kyrru fyrir. Verkefnið kláraðist síðan um þrjúleytið í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert