No Borders-mótmælandi sakfelldur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Mómælandi sem tók þátt í mótmælum No Borders við Alþingishúsið 19. mars 2019 hefur verið sakfelldur fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Aftur á móti er hann sýknaður af því að hafa hindrað lögreglumenn í störfum. Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kvað upp dóm sinn í gær.

Mótmælin, sem voru á vegum samtakanna No Borders, voru til að mótmæla brottvísunum umsækjenda um alþjóðlega vernd og stóðu mótmælendur fyrir inngangi Alþingishússins.

Hlýddi ekki lögreglu

Mómælandinn var ákærður fyrir að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu er hún sagði mótmælendum að fara frá inngangi Alþingis.

Í dómnum segir að samkvæmt stjórnarskránni sé Alþingi friðheilagt og að enginn megi raska friði þess né frelsi. Samkvæmt lögreglulögum beri lögreglu skylda til að gæta að þinghelgi og starfsfriði Alþingis.

„Er það mat dómsins að téð fyrirmæli hafi samrýmst hlutverki og skyldum lögreglu gagnvart Alþingi, að tryggja aðgengi að húsnæðinu, gæta að allsherjarreglu og halda uppi lögum og reglu á svæðinu,“ segir í dómnum. 

Var mótmælandinn því sakfelldur fyrir að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu.

Engin hætta af háttseminni

Mótmælandinn var einnig ákærður fyrir að hafa hindrað lögreglumenn í störfum, með því að stíga í veg fyrir þá þegar þeir voru að færa handtekinn mann í átt að lögreglubifreið á vettvangi, en var hann sýknaður af þeim lið.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði hafði ekki áður gerst brotlegur við refsilög, að tafir hefðu orðið á málsmeðferð, að engin hætta eða tjón hefði hlotist af háttseminni og að ákærði hefði verið að standa vörð um mannorð og velferð fólks.

Niðurstaða dómsins var því að fresta ákvörðun refsingar ákærða skilorðsbundið í eitt ár. Þó þarf ákærði að greiða 275 þúsund krónur í sakarkostnað. 

mbl.is