Segir rostunginn voða þægan og prúðan

Rostungurinn sem hefur verið í heimsókn á Höfn í Hornafirði undanfarna daga brá sér frá í morgun.

„Hann kemur upp á bryggjuna í fyrrakvöld og svo aftur í gærkvöldi einhvern tímann. Hann er síðan farinn núna en hann gæti kíkt aftur, það er aldrei að vita,“ segir Vignir Júlíusson, forstöðumaður Hornafjarðarhafna.

Hann segir að talsverður fjöldi fólks sé búinn að koma að höfninni til þess að kíkja á rostunginn, sem kallaður er Valli.

Hann segir rostunginn ekki hafa valdið neinu tjóni eða skemmdum í heimsókn sinni. „Hann var voða þægur og prúður,“ segir Vignir.

Rostungurinn Valli hefur legið makindalega á flotbryggju við höfnina síðan á sunnudag og segir Vignir hann hafa litið út fyrir að hafa notið sín nokkuð vel þar.

„Ég hef nú ekki sérstakt vit á rostungum en maður sá ekki annað en að hann væri brattur, kannski eitthvað þreyttur það gæti verið.“

mbl.is